Skoðun

Ráð­herrar kasta á milli sín heitri (franskri) kar­töflu

Ólafur Stephensen skrifar

Félag atvinnurekenda sendi Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi 24. ágúst síðastliðinn og hvatti þau til að beita sér fyrir niðurfellingu 76% tolls, sem lagður er á innfluttar franskar kartöflur.

Rökin fyrir að fella tollinn niður eru augljós. Hann var lagður á til að vernda innlenda framleiðslu. Lengi vel hefur hann verndað eitt fyrirtæki, Þykkvabæjar, sem framleiddi franskar kartöflur – reyndar úr innfluttum kartöflum að stórum hluta. Hinn 24. ágúst tilkynnti fyrirtækið að það væri hætt framleiðslunni. Hæsti prósentutollur tollskrárinnar verndar þá ekkert lengur. Hann er bara úreltur og ósanngjarn skattur á verzlun, veitingarekstur og neytendur í landinu, sem nemur 300-400 milljónum króna á ári.

Svar barst um hæl frá atvinnuvegaráðuneytinu 26. ágúst. Þar sagði: „Af þessu tilefni skal það upplýst að matvælaráðherra hefur ekki aðkomu að ákvörðun tolls fyrir umrædda vöru þar sem hún ber einungis verðtoll og heyrir því slíkur innflutningur undir valdsvið fjármálaráðherra.“ Afrit af bréfinu fór á fjármálaráðuneytið.

Í fréttum Stöðvar 2 föstudaginn 9. september sagði Bjarni Benediktsson: „Þetta er ekki á mínu borði. Þetta er hjá landbúnaðarráðherranum eða matvælaráðherranum, að vinna að tollfrelsi með landbúnaðarafurðir. Ég er hlynntur því að lækka tolla. Þetta er oft og tíðum bara skattur á íslenska neytendur.“

Það gengur að sjálfsögðu ekki að stjórnmálamenn firri sig ábyrgð með því að kasta málum á milli sín eins og heitri kartöflu. Í ljósi þess að Svandís og Bjarni hittast tvisvar í viku, á ríkisstjórnarfundum á þriðjudögum og föstudögum, hljóta þau að geta talað saman um málið og komizt að niðurstöðu um hvort þeirra ber ábyrgð á að leggja til breytingar á úreltum verndarskatti. Næsti fundur er á morgun, þá er tækifærið. Næsta skref er svo frumvarp – eða breytingartillaga við einhver af fylgifrumvörpum fjárlaganna – um að fella tollinn niður.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×