Innlent

Ruddist í heimildar­leysi inn í svefn­her­bergi konu

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað í mars síðastliðnum.
Atvikið átti sér stað í mars síðastliðnum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða fangelsi og til greiðslu miskabóta fyrir að hafa ruðst í heimildarleysi inn í kjallaraíbúð og farið inn í svefnherbergi íbúðarinnar þar sem kona svaf.

Í dómnum segir að atvikið hafi átt sér stað að næturlagi í mars síðastliðinn, en maðurinn, sem er tvítugur og var undir áhrifum áfengis, á að hafa komist inn í íbúðina með því að spenna upp glugga á þvottahúsi. Segir að konan hafi vaknað upp við að hundurinn hennar gelti þegar maðurinn kom inn í íbúðina.

Maðurinn var ákærður fyrir húsbrot, en hann hefur ekki áður gerst brotlegur við lög samkvæmt sakaskrá. Í dómsorðum segir að fresta skuli fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða konunni 150 þúsund krónur í miskabætur, auk tæplega 200 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×