Innlent

Eig­andi Plútós vill leyfa skrið­dýra­hald á Ís­landi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Plútó drekkur hér vatn úr búri sínu, sem er orðið heldur lítið fyrir kallinn að sögn eigandans. Hann ætlar að kaupa stærra búr undir Plútó, sem er kornsnákur. Þeir stækka hratt og geta orðið allt að eins og hálfs metra langir.
Plútó drekkur hér vatn úr búri sínu, sem er orðið heldur lítið fyrir kallinn að sögn eigandans. Hann ætlar að kaupa stærra búr undir Plútó, sem er kornsnákur. Þeir stækka hratt og geta orðið allt að eins og hálfs metra langir. vísir/einar

Snákar og skrið­dýr eru orðin nokkuð al­geng gælu­dýr á Ís­landi. Ætla má að dýrin finnist hér í hundraða­tali. Við litum við hjá eig­anda snáksins Plútós, sem vill leyfa skrið­dýra­hald á Ís­landi.

Af aug­ljósum á­stæðum kom eig­andinn ekki fram undir nafni. Það er strang­lega bannað að halda snáka eða önnur skrið­dýr á Ís­landi og ef lög­regla eða Mat­væla­stofnun (MAST) kæmust að því hvar Plútó býr yrði hann tekinn burtu og af­lífaður.

„Við fáum yfir­leitt lög­regluna í lið með okkur þar sem að dýrin eru svo fjar­lægð. Við þurfum yfir­leitt að leita til lög­reglu þar sem fólk trú­lega er ó­fúst til að láta slík dýr af hendi. Svo er farið með dýrið til dýra­læknis þar sem það er af­lífað á mann­úð­legan hátt,” segir Þóra J. Jónas­dóttir, sér­greina­dýra­læknir hjá MAST, spurð hver við­brögð stofnunarinnar séu fái þau á­bendingar um skrið­dýra­hald fólks á Ís­landi.

Þóra J. Jónasdóttir, sérdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að stofnunin fái að jafnaði um tíu tilkynningar á ári um skriðdýrahald á Íslandi.VÍSIR/EINAR

Ætla má að skrið­dýr á ís­lenskum heimilum séu í hundraða­tali. Á leyni­legri Face­book-síðu hafa eig­endur þeirra safnast saman til að ræða allt sem tengist skrið­dýra­haldi. Með­limir hópsins eru tæp­lega þúsund talsins. Eig­andi Plútós segir snákinn gott gælu­dýr.

Snákurinn og kötturinn mestu mátar

„Mér finnst þetta bara vera svo flott dýr beisikk­lí. Tengi við snákinn,” segir hann. Mun betri gælu­dýra­kostur en köttur eða hundur að hans sögn enda fer ekki mikið fyrir þeim.

Plútó horfir löngunaraugum á jakkaföt fréttamanns, sem hann var afar spenntur að kanna nánar. Rétt eftir að myndin var tekin var hann kominn hálfur inn undir ermi jakkans.vísir/einar

„Já, ég er með einn kött hérna heima líka og ég hef meira gaman af snáknum.”

Hvernig ná þeir saman?

„Þeir eru mjög fínir vinir. Kötturinn kemur oft til okkar upp í rúm þegar við erum þar og þeir fara eitt­hvað að kýtast og leika sér.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá þegar frétta­stofa leit við hjá Plútó og eig­anda hans:

Mat­væla­stofnun segir tvær megin­á­stæður fyrir því að ekki megi eiga hér skrið­dýr.

Annars vegar dýra­vel­ferðar­sjónar­mið. Þeir séu villt dýr.

Og hins vegar geti þeim fylgt ýmsir smit­sjúk­dómar eins og sníkju­dýr, bakteríur, sveppir og veirur og mikið af þessu getur smitast beint yfir í fólk.

En eig­andi Plútós hefur ekki miklar á­hyggjur af þessu. Aldrei hefur hann lent í veseni með smit­sjúk­dóma þegar kemur að Plútó, þvær sér alltaf um hendur eftir að hann heldur á honum og hefur aldrei heyrt af slíkum til­fellum úr sam­fé­lagi skrið­dýra­eig­enda á Ís­landi.

Plútó er bara nokkuð sætur þegar maður fær að kynnast honum aðeins. vísir/einar

Finnst þér að þetta ætti að vera leyfi­legt á Ís­landi?

„Mér finnst það. Þú veist, þetta er bara í búri og þegar fólk getur átt ketti þá skil ég ekki af hverju það má ekki eiga einn snák.“

Eig­andinn bendir á að til dæmis í Noregi séu þeir seldir í gælu­dýra­búðum og að hér væri auð­velt að koma á eðli­legu eftir­liti og um­hverfi til að leyfa snáka­hald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×