Fótbolti

Jakob Snær: Við erum alls ekki hættir

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jakob Snær Árnason var hetja KA manna í dag þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Val.
Jakob Snær Árnason var hetja KA manna í dag þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Val. Vísir/Hulda Margrét

„Það er alltaf sætt að skora og sérstaklega þegar mörkin telja mikið fyrir liðin. Mér fannst við vinna fyrir þessu í dag,“ sagði Jakob Snær Árnason, hetja KA-manna, en hann skoraði sigurmarkið gegn Val í Bestu deildinni í dag.

„Mér fannst við vinna fyrir þessu. Ég er ekkert að segja að þeir hafi verið eitthvað betri en við byrjuðum illa. Síðan fannst mér við koma sterkt inn í leikinn og sérstaklega í síðari hálfleik. Þá fannst mér spurningamerki hvenær við myndum setja markið og það var sætt þegar það kom, hvort sem það var frá mér eða einhverjum öðrum,“ sagði þessi öflugi framherji KA manna sem hefur verið að leika vel að undanförnu.

Þegar Jakob skoraði mark KA flaggaði Eysteinn Hrafnkelsson aðstoðardómari rangstöðu en Pétur Guðmundsson dómari dæmdi mark. Ansi sérstakar aðstæður en Pétur virtist hafa rétt fyrir sér því það var Sebastian Hedlund varnarmaður Vals sem skallaði boltann áfram á KA.

„Ég vildi meina að ég hafi ekkert verið rangstæður þannig að ég var sallarólegur. Síðan segja þeir að ég hafi mögulega aðeins verið fyrir innan en komið flikk frá varnarmanni. Þetta telur jafn mikið fyrir okkur hvort sem það er í samskeytin eða svona, við erum bara kátir.“

Leikurinn í dag var sá síðasti hjá liðunum í hefðbundinni deildakeppni en nú skiptist deildin í tvennt og liðin í efri og neðri hluta leika sín á milli. KA er í 3.sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Víkingur en átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

„Það er bara gamla klisjan, einn leikur í einu. Við erum alls ekki hættir og það er ekkert öruggt í þessu. Það eru bara efstu tvö sætin sem gefa Evrópusæti og við erum að stefna á það þangað til annað kemur í ljós,“ sagði Jakob Snær Árnason að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×