Gerry og Kate McCann, foreldrar Madeleine, stefndu Goncalo Amaral, lögreglumanni sem tók þátt í rannsókn á hvarfi dóttur þeirra í Portúgal árið 2007. Amaral leiddi að því líkur í bók sem hann skrifaði að þau kynnu að hafa verið viðriðin hvarfið.
Portúgalskur dómstóll dæmdi þeim í vil og gerði Amaral að greiða þeim bætur árið 2015 en tveimur árum síðar var dómnum snúið við af hæstarétti landsins. Skutu hjónin þá málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og héldu því fram að þau hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar, tjáningarfrelsis og rétts til friðhelgis einkalífs í Portúgal.
Mannréttindadómstóllinn hafnaði því að portúgalska réttarkerfið hefði brugðist skyldu sinni að gæta réttinda þeirra. Töldu dómararnir að rök foreldranna um að þau skyldu talin saklaus uns sekt yrði sönnuð illa ígrunduð, að því er segir í frétt Reuters.
„Jafnvel þó að gengið væri út frá að mannorð þeirra hefði beðið skaða af þá var það ekki vegna röksemda sem bókarhöfundurinn setti fram heldur vegna grunsemda sem hafa vaknað um þau,“ sagði í dómsorðinu.
Fyrr á þessu ári greindu portúgölsk yfirvöld frá því að þýskur karlmaður lægi undir grun um að tengjast hvarfi Madeleine McCann.