Samkvæmt tilkynningu frá Neytendasamtökunum tóku Danir þetta skref í kjölfar þess að Austurríkismenn, Frakkar og Ítalir bönnuðu allir notkun forritsins eftir að hafa skoðað allar stillingar og skilmála forritsins. Vinnsla persónuupplýsinga Google Analytics samrýmist ekki persónuverndarreglugerð ESB, GDPR.
Í kjölfar dóma í Austurríki og Frakklandi gaf Persónuvernd út tilkynningu sem Neytendasamtökin segja að megi túlka sem viðvörun til íslenskra vefumsjónarmanna. Líklegast brjóti notkun íslenskra vefsíðna á Google Analytics sömu lög.
Neytendasamtökin skora á Persónuvernd að leggja tafarlaust bann við notkun Google Analytics hér á landi. Samkvæmt könnun Neytendasamtakanna nota nánast öll íslensk fyrirtæki og stofnanir forritið, þar á meðal Alþingi.