Innlent

Sér­sveit hafði af­skipti af einum mannanna þegar hann var tólf ára við leik

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var aðeins tólf ára gamall þegar lögregla og sérsveit var kölluð út vegna hans.
Maðurinn var aðeins tólf ára gamall þegar lögregla og sérsveit var kölluð út vegna hans. Vísir/Vilhelm

Einn mannanna sem grunaður er um að hafa skipulagt hryðjuverk hér á landi komst í kast við sérsveit ríkislögreglustjóra fyrir þrettán árum. Hann var þá tólf ára gamall og hafði verið að leik þegar sérsveit var kölluð til vegna hans. 

Maðurinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir að hafa verið handtekinn, ásamt þremur öðrum, í aðgerðum lögreglu og sérsveitar á miðvikudag. Þetta er þó ekki fyrsta sinn sem maðurinn hefur komið við sögu sérsveitar en þegar hann var aðeins tólf ára gamall slasaðist hann eftir að sérsveit yfirbugaði hann.

Sérsveitin hafði þá verið kölluð út á höfuðborgarsvæðinu eftir að tilkynnt var um vopnaðan mann í bifreið. Þar var þó um tólf ára gamlan dreng með leikfang að ræða.

Fram kemur í fréttum frá sínum tíma að sérsveitin hafi ráðist inn í bifreiðina, beint skotvopnum að drengnum og skipað honum að fara út úr bílnum og leggjast í jörðina. Þar hafi höndum hans verið haldið fyrir aftan bak. Þá segir í gömlum fréttum að hann hafi orðið fyrir nokkrum meiðslum.

Nú er þessi drengur, eða maður, grunaður um að undirbúa hryðjuverk með hópi manna. Hann og annar, sem var úrskurðaður í viku gæsluvarðhald, eru grunaðir um stórfellda framleiðslu á skotvopnum, meðal annars með þrívíddarprentara, og sölu á þeim. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur maðurinn verið spurður um atvikið þegar hann var barn í yfirheyrslu hjá lögreglu frá þv í hann var handtekinn á miðvikudag.

Maðurinn var nafngreindur í fjölmiðlum í gær en lögmaður hans, Ómar Örn Bjarnþórsson segist í samtali við fréttastofu fordæma nafngreiningu mannsins. Hann biður þá fólk að anda með nefinu og sjá hvort grunsemdir lögreglu séu á rökum reistar. 

Heimildir fréttastofu herma að einn þeirra manna sem var handtekinn í aðgerðum lögreglu á miðvikudag og síðar sleppt sé lögmaður og hafi verið leigutaki í húsnæði í Mosfellsbæ sem leit lögreglu beindist að. 

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að verið sé að vinna í málinu á fullu en ekki sé hægt að greina hvers eðlis sú vinna sé. Lögregla hafi mjög knappan tíma áður en gæsluvarðhaldsúrskurður renni út yfir öðrum mannanna og vinni því öllum stundum að því.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:20.


Tengdar fréttir

Finnst fá­rán­leg kenning að maðurinn tengist öfga­hópum

Að­stand­endur eins þeirra sem situr í gæslu­varð­haldi grunaður um að undir­búa hryðju­verk kannast alls ekki við að hann hafi að­hyllst öfga­kennda hug­mynda­fræði eða átt í nokkrum sam­skiptum við er­lenda pólitíska öfga­hópa. Mennirnir tveir eru grunaðir um stór­fellda fram­leiðslu á skot­vopnum, meðal annars með þrí­víddar­prentara, og sölu á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×