Húsleit var gerð í búðum Lev Tahor-safnaðarins í skógunum norður af Tapachula í Chiapas-ríki á föstudag. Flogið var með börnin og ungmennin til Ísrael þar sem þau eiga ættingja, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Þau voru strax skilin frá öðrum safnaðarmeðlimum af ótta við að lífa þeirra væru í hættu ef þeir fullorðnu reyndu að koma í veg fyrir að þau yrðu fjarlægð úr búðunum.
Aðgerðin fyrir helgi er afsprengi samstarfs mexíkósku lögreglunnar og sjálfboðaliða frá Ísrael, þar á meðal fyrrverandi útsendara ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad. Samstarfið hófst fyrir tveimur árum þegar ættingjar safnaðarmeðlima í Ísrael óskuðu eftir aðstoð.
Lev Tahor, sem þýðir hreint hjarta á hebresku, var stofnað í Ísrael árið 1988. Stofnandinn, Shlomo Helbrans, var dæmdur fyrir mannrán í Bandaríkjunum árið 1994. Dómstóll í Ísrael hefur lýst söfnuðinn hættulegan sértrúarsöfnuð.
Talið er að um 350 manns séu í söfnuðinum en hann hefur hrökklast frá einu landi til annars vegna rannsókna yfirvalda. Hann er nú með búðir í Ísrael, Bandaríkjunum, Makedóníu, Marokkó, Mexíkó og Gvatemala. Upphaflega settist hópurinn að í Gvatemala árið 2014 en hluti hans fór ólöglega yfir landamærin til Mexíkó og kom sér fyrir þar í janúar.
Leiðtogar safnaðarins í Gvatemala voru handteknir og ákærðir vegna mannránsmál árið 2018. Lét söfnuðurinn ræna tveimur börnum frá móður sinni sem flúði með þau frá söfnuðinum. Börnin fundust þremur vikum síðar í Mexíkó.