Umræðan

Fimm aumir ráðherrastólar

Ísak Rúnarsson skrifar

Síðastliðið sumar var ég staddur í Róm á Ítalíu þegar ríkisstjórnin sprakk. Stjórnin sprakk í kjölfar þess að ekki náðist samstaða um langþráðar umbætur á sviði efnahagsmála og ríkisfjármála. Ástand mála á Ítalíu þegar kemur að efnahagsmálum er að mörgu leyti sorglegt. Vöxtur landsframleiðslu hefur verið lítill sem enginn undanfarna tvo áratugi og krónísk skuldasöfnun ríkisins hefur verið dragbítur á hagkerfinu. Í meira en fimmtíu ár hefur engu stjórnmálaafli þar í landi auðnast að reka ríkissjóð landsins með afgangi.

Ítalir ættu að vita manna best hversu mikilvæg ábyrg hagstjórn er. Samlandi þeirra, Niccoló Machiavelli, benti á mikilvægi þess að stjórnvöld færu ekki of frjálslega með ríkisbudduna fyrir næstum því 500 árum. Að skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum myndi fyrr eða síðar koma furstanum í koll þegar hætta steðjaði að, því hann hefði ekki bolmagn til að mæta utanaðkomandi hættum nema með því að seilast í vasa skattgreiðenda sinna, sem myndu ekki kenna honum þakkir fyrir á ögurstundu, heldur snúast gegn honum.

Sannleikurinn er sá að flestir, ef ekki allir, eru Keynesistar í dag, þó sumir eigi ef til vill erfitt með að viðurkenna það fyrir sjálfum sér.

Og þó Machiavelli hafi ritað þessi orð á allt öðrum tíma við aðrar hefðir, þegar allir valdaþræðir voru fyrst og fremst í hendi eins manns í hverju ríki fyrir sig og merkantílisminn réð ríkjum, felast þó viss sannindi í orðum hans. Það kæmi Machiavelli sennilega ekki á óvart að Ítalir eru í dag meðal þeirra Evrópuþjóða þar sem samúð með málstað Rússa mælist einna mest og minnstur stuðningur er fyrir refsiaðgerðum og eflingu landvarna. Honum kæmi svo sannarlega ekki á óvart að ríkisstjórnin hafi sprungið. Machiavelli myndi benda á að ábyrgðarleysi Ítala í ríkisfjármálum og hagstjórn almennt hefur einfaldlega gert það að verkum að ítalska hagkerfið er afskaplega illa í stakk búið til þess að takast á við utanaðkomandi ógnir.

Allir eru Keynisistar í dag

Þótt margir hægri menn séu í orði kveðnu mótfallnir hugmyndum Keynes lávarðar, um að ríkið eigi að stíga á móti hagsveiflunni og auka rikisútgjöld þegar hagkerfið dregst saman, þá er sannleikurinn sá að flestir, ef ekki allir, eru Keynesistar í dag, þó sumir eigi ef til vill erfitt með að viðurkenna það fyrir sjálfum sér. Í alþjóðlegu fjármálakreppunni árið 2008 gripu nær allar, ef ekki allar, ríkisstjórnir á Vesturlöndum til mótvægisaðgerða og hið sama var uppi á teningnum þegar kom að Kófinu. Það á við á Íslandi líkt og annarsstaðar. Jafnvel hinir hægri sinnuðustu einstaklingar (og samtök) finna sig í þeirri stöðu að tala fyrir inngripum ríkisvaldsins á ólgutímum.

Hallareksturinn heldur áfram, báknið blæs út þar til kemur að næsta áfalli, og allir gerast Keynisistar að nýju og enn blæs báknið út. Á endanum geta þjóðir fundið sig í sporum Ítala ef ábyrgðarleysið er algjört.

Almenn fylgispekt við kennisetningar Keynisismann dregur þó ekki úr ókostum hans. Það reynist jafnan erfiðara að vinna stefnunni stuðning í uppsveiflu en í niðursveiflu. Þegar kemur að því að dragar úr umsvifum hins opinbera og ná fram afgangi á uppgangstímum reynir á ábyrgð stjórnmálamanna og kjósenda. Oft reynist staðfestan ónóg og stuðningur við slíkar aðgerðir lítill. Hallareksturinn heldur áfram, báknið blæs út þar til kemur að næsta áfalli, og allir gerast Keynisistar að nýju og enn blæs báknið út. Á endanum geta þjóðir fundið sig í sporum Ítala ef ábyrgðarleysið er algjört.

Á Íslandi var þess vegna sérstakur myndarbragur af ríkisfjármálunum árin 2013-2016. Oftast er auðvitað rætt um samninga við kröfuhafana sem löguðu skuldastöðu ríkissjóðs á augabragði þegar þeir voru í höfn. Engu síðra var að ná rekstrarreikningnum í jafnvægi, að koma ríkissjóði aftur í þá stöðu að skila afgangi, nokkuð sem hafði ekki tekist árin á undan. Það var pólitískt þrekvirki, enda ekki sjálfgefið eins og dæmin sanna. Þar var gengið fram af stefnufestu með ákveðnar hugsjónir um hlutverk ríkisvaldsins og nauðsyn þess að sýna ábyrgð í meðferð fjármuna skattgreiðenda. Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á mikinn heiður skilið fyrir þau verk, sem ekki voru allstaðar vinsæl á þeim tíma.

Fjárlagafrumvarp sem heldur húsnæðisafborgunum háum

Það er þess vegna sérstaklega sorglegt að sjá þau lausatök sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023. Um þessar mundir gerir Seðlabankinn ráð fyrir 5,9 prósenta hagvexti og 8,8 prósenta verðbólgu á árinu 2022. Hagkerfið er með öðrum orðum í blússandi gangi – og ekki bara á jákvæðan hátt.

Aðal prófraunin þegar kemur að ábyrgri fjármálastjórn er hvort fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi pólitíska burði til þess að vera leiðinlegi gaurinn í partýinu.

Ekki stóð á fjármálaráðherra og ríkisstjórninni að ausa fé úr sameiginlegum sjóðum í kófinu, af skiljanlegum ástæðum, en ef vel á að ganga þarf líka að standa sig í stykkinu þegar kemur að því að draga úr umsvifum hins opinbera þegar birtir til. Því miður er það ekki að eiga sér stað núna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna (sem er mælikvarði á það hvort ríkisstjórnin sé með hagkerfið í megrun eða ekki) minnkar. Halli ríkissjóðs er meiri nú en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun í vor í hlutfalli við verga landsframleiðslu, þó tekjur séu að sama skapi meiri en áður var áætlað. 70 fjárlagaliðir hækka umfram 8,8 prósent verðbólguspánna og þá á eftir að úthluta stórum hluta launahækkana (þ.e. þeim hluta sem mun falla til vegna nýrra kjarasamninga - það fjármagn er geymt á fjárlagaliðnum Almennur varasjóður). Þeir liðir sem lækka eða standa í stað virðast að stóru leyti vera sjálfvirku sveiflujafnararnir en útgjöld þeirra, eins og til dæmis atvinnuleysisbóta, minnka samhliða uppgangi hagkerfis. Þá er auðvitað ótalin þingleg meðferð frumvarpsins og aðkoma ríkissjóðs að gerð kjarasamninga á almenna markaðnum, sem maður hefur tilhneigingu til að trúa að muni auka á halla ríkissjóðs frekar en að minnka hann.

Þetta kann að hljóma allt saman mjög tæknilegt, en það er það ekki. Stjórn ríkisfjármála er frekar einföld að upplagi, aukin útgjöld þegar illa árar og samdráttur þegar vel árar. Ef það er gert með trúverðugum hætti hefur Seðlabankinn að öðru jöfnu færi á að lækka vexti og létta á byrðum borgaranna. Margir þessara sömu borgara standa frammi fyrir því að þurfa að herða sultarólina ansi harkalega á árinu 2023 til þess að eiga fyrir mikið hækkuðum greiðslum af húsnæðislánum. Aðal prófraunin þegar kemur að ábyrgri fjármálastjórn er hvort fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi pólitíska burði til þess að vera leiðinlegi gaurinn í partýinu.

Það verður ekki betur séð en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi selt hugsjónir og loforð til kjósenda um ábyrga stjórn ríkisfjármála og minna bákn fyrir fimm auma ráðherrastóla og lítið annað.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur fyrst og fremst verið eyðslustjórn frá því hún var mynduð árið 2017 og nú virðist hún ætla að falla á stóra prófi ríkisfjármálanna. Íslenskur almenningur mun einfaldlega borga fyrir áframhaldandi frið á stjórnarheimilinu í gegnum húsnæðislánin sín. Reynslan frá árunum 2013-2016 sýnir að fjármálaráðherra veit vel hvað þarf til að stunda ábyrga stjórnun ríkisfjármála. Það verður ekki betur séð en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi selt hugsjónir og loforð til kjósenda um ábyrga stjórn ríkisfjármála og minna bákn fyrir fimm auma ráðherrastóla og lítið annað. Það er miður.

Höfundur er MBA frá Dartmouth og MPA nemi við Harvard.




Umræðan

Sjá meira


×