Viðskipti innlent

Verðbólgan komin niður í 9,3 prósent

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Verðbólgan heldur áfram að minnka. 
Verðbólgan heldur áfram að minnka. 

Verðbólga síðustu tólf mánaða heldur áfram að minnka og mældist 9,3 prósent í september. Verð á fötum og skóm og raftækjum til heimilisnota kom helst til hækkunar en verð á flugfargjöldum til lækkunar. 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09 prósent milli mánaða og mælist tólf mánaða verðbólga nú 9,3 prósentustig, samanborið við 9,7 prósentustig í ágúst. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum á vef Hagstofunnar

Mest fór verðbólgan upp í 9,9 prósentustig í júlí en greiningardeildir bankanna spá því að verðbólga haldi áfram að minnka hægt það sem eftir lifi árs.

Landsbankinn telur líklegt að Seðlabankinn haldi áfram að hækka stýrivexti þar sem verðbólga er enn langt yfir verðbólgumarkmiðið. Íslandsbanki segir útlit fyrir að stýrivextir nái að hámarki sex prósentum á þessu ári.

Verð á flugfargjöldum lækkar mikið

Verð á fötum og skóm hækkaði um 4,6 prósent milli mánaða og eru áhrifin á verðbólguna í september 0,15 prósent til hækkunar. 

Verð á heimilistækjum til heimilisnota hækkaði einnig um 5,4 prósent og eru áhrifin á verðbólguna 0,10 prósent. 

Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði aftur á móti um 17,9 prósent milli mánaða og lækkar verðbólguna þar með um 0,42 prósentustig. 


Tengdar fréttir

Gefur Seðla­bankanum færi á að hægja á vaxta­hækkunar­taktinum

Lækkun íbúðaverðs í ágúst kom greinendum og fjárfestum á óvart, sem endurspeglaðist í skarpri lækkun óverðtryggðra ríkisbréfa í dag, en eftir þær tölur er ljóst að nýjasta spá Seðlabankans er að ofmeta verðbólguna talsvert næsta kastið. Þótt ástandið sé enn viðkvæmt þá þýðir kólnandi fasteignamarkaður að útlit er fyrir að lítið sé eftir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans, að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði.

Í­búða­verð lækkar á milli mánaða í fyrsta sinn í þrjú ár

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,4 prósent á milli mánaða í ágúst. Er það í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019 sem vísitalan lækkar.  Hagfræðideild Landsbankans telur að þetta sé skýrt merki um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að kólna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×