Þetta er niðurstaða Landsréttar sem dæmdi í máli mannsins gegn Isavia og Verði, tryggingarfélagi Isavia. Þar með sneri Landsréttur dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem hafði sýknað Isavia og tryggingarfélagið af kröfum mannsins á síðasta ári.
Málið má rekja til þess að í október 2015 slasaðist slökkviliðsmaðurinn í þrekprófi. Hrasaði hann og féll aftur fyrir sig með áttatíu kílóa æfingabrúðu í fanginu og súrefniskút á bakinu. Lýsti maðurinn því að morgni þrekprófsins hafi prófstjóri komið að sér fyrirvararlaust og sagt að hann skyldi koma og taka þrekpróf.
Afleiðingar slyssins urðu þær að slökkviliðsmaðurinn varð óvinnufær og lét skömmu síðar af störfum hjá Isavia. Hann hafði starfað sem slökkviliðsmaður um áratuga skeið og reglulega farið í þrekpróf. Undanfarin ár hafði hann hins vegar ekki tekið slíkt próf vegna hnémeiðsla.

Þá hafði hann frá árinu 2004 glímt við bakmeiðsli. Í dómi Landsréttar er vísað í að samkvæmt reglum Isavia um þrekpróf mega starfsmenn ekki fara í slík próf nema að undangenginni læknisskoðun, og þá innan sex mánaða frá því að hún fór fram.
Ekki hægt að útiloka að læknisskoðun hefði leitt í ljós að maðurinn væri ófær um að taka prófið
Í dómi Landsréttar segir að við framkvæmd umrædds þrekprófs hafi verið brotið gegn þeirri reglu. Ekki sé hægt að útiloka, miðað við skýrslu heimilislæknis mannsins frá árinu 2015, að komið hefði í ljós við læknisskoðun að slökkviliðsmaðurinn hefði ekki verið fær til að taka prófið vegna mjóbaksverkja.
Telur Landsréttur því að Isavia sem vinnuveitandi mannsins að bera hallann af því að hafa verið skyldaður til að taka þrekpróf án þess að ný læknisskoðun færi fram.
Féllst dómurinn því á kröfu mannsins um að bótaskylda Isavia og tryggingarfélags þess væri viðurkennd. Þá þurfa Isavia og tryggingafélagið að greiða manninum þrjár milljónir í málskostnað.