Heimamenn í Bayern voru ekkert að slóra og Leroy Sane kom liðinu yfir strax á þriðju mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Jamal Musiala.
Musiala var svo sjálfur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystu heimamanna eftir 17 mínútna leik og hann lagði svo einnig upp þriðja mark liðsins tuttugu mínútum síðar fyrir Sadio Mane. Staðan því 3-0 í hálfleik og útlitið gott fyrir þýsku meistarana.
Sadio Mane hélt svo að hann hefði skorað annað mark sitt og fjórða mark heimamanna snemma í síðari hálfleik, en markið dæmt af eftir skoðun myndbandsdómara og staðan því enn 3-0.
Það var svo Thomas Müller sem gerði endanlega út um leikinn þegar hann skoraði fyrir heimamenn rúmum fimm mínútum fyrir leikslok og niðurstaðan því 4-0 sigur Bayern.
Bayern München situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir átta leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Union Berlin sem á þó leik til góða. Bayer Leverkusen situr hins vegar í 16. sæti deildarinnar með aðeins fimm stig og liðið hefur einungis unnið einn leik á tímabilinu.