Erlent

Krefur CNN um 68 milljarða vegna meintra ærumeiðinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump þykir CNN hafa vegið ómaklega að sér.
Trump þykir CNN hafa vegið ómaklega að sér. AP/Kenneth Ferriera

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur höfðað mál á hendur fjölmiðlarisanum CNN. Sakar hann sjónvarpsstöðina um að hafa vegið að æru sinni og fer fram á 475 milljónir dala í skaðabætur, jafnvirði 68 milljarða króna.

Lögmenn Trump segja CNN hafa freistað þess að láta forsetann fyrrverandi líta illa út með því að gera úr því skóna að hann sé rasisti, leppur Rússa og uppreisnarsinni og jafnvel gengið svo langt að líkja honum við Hitler.

Málið var höfðað fyrir alríkisdómstól í Fort Lauderdale.

Í gögnum málsins segir að CNN hafi ekki látið sér nægja að draga allar neikvæðar upplýsingar um Trump fram í sviðsljósið og hunsa allar jákvæðar fréttir, heldur hafi stöðin leitast við að nota gríðarleg áhrif sín, sem „traustur“ fréttamiðill, eins og það er orðað, til að vega að æru Trump og hafa þannig áhrif á álit áhorfenda sinna og lesenda í þeim tilgangi að stuðla að pólitískum ósigri hans.

Forsvarsmenn CNN hafa ekki tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×