Innlent

Til­kynntu tölvu­leikja­spilara til lög­reglu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gær og í gærnótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gær og í gærnótt. Vísir/Vilhelm

Í gær barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um öskur og læti frá íbúð í Kópavogi. Lögregla mætti á vettvang en í ljós kom að öskrin komu frá manni sem var að spila tölvuleiki. Hann lofaði lögreglu að róa sig niður.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem farið er yfir helstu verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt frá klukkan 17 til klukkan 5.

Nokkuð var um ölvun í miðbænum í gær, einum ofurölvi einstakling var ekið heim af lögreglu, tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað og einn var stöðvaður grunaður um ölvun við akstur. Lögreglu barst tilkynning um einstakling sem hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli í miðbænum. Hann var með áverka á andliti og var fluttur á slysadeild. Lögreglu grunar að maðurinn hafi verið ölvaður og því var hann sendur í blóðsýnatöku.

Tilkynnt var um unglinga að fikta með eld á skólalóð í Vesturbænum. Lögreglan skoðaði málið en í ljós kom að skátarnir báru ábyrgð á eldinum. Þeir voru búnir að slökkva eldinn og með allt á hreinu þegar lögregla kom á staðinn.

Ölvaður maður sofnaði undir stýri í Kópavogi. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð í sýnatöku. Þá var hann vistaður í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.

Í Grafarholti ók ökumaður á ljósastaur. Hann reyndist vera ölvaður og neitaði að blása í áfengismæli. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×