Hann segir hættuna á kjarnorkuhamförum ekki hafa verið jafn mikla í 60 ár.
Ummælin lét forsetinn falla á fjáröflunarviðburði í New York í gær.
Biden sagðist þekkja mann, nokkuð vel, og var augljóslega að tala um Pútín. Sá væri ekki að gantast þegar hann talaði um að nota mögulega kjarnorku- eða efnavopn, þar sem heraflinn hans hefði ekki staðið undir væntingum.
Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar síðastliðnum hafa Pútín og aðrir ráðamenn í Rússlandi ítrekað látið að því liggja að þeir muni mögulega grípa til kjarnorkuvopna.
Þá vaknar sú spurning hvernig Bandaríkin og bandamenn myndu bregðast við en sérfræðingar hafa látið að því liggja að það yrði gert með hefðbundnum vopnum, til að forðast stigmögnun sem gæti endað í kjarnorkustyrjöld.
Biden sagði hins vegar í gær að það væri ekki svo auðvelt að nota kjarnorkuvopn án þess að það endaði með hörmungum.
Menn veltu því nú fyrir sér hvernig Pútín ætlaði að koma sér úr þeirri holu sem hann hefði komið sér í en það er mat sérfræðinga Vestanhafs að Pútín telji sig eiga framtíð sína undir því hvort Rússar hafa sigur í Úkraínu eða ekki.
Vólódómír Selenskí Úkraínuforseti sagði þó fyrr í gær að Pútín væri meðvitaður um það að heimurinn myndi aldrei fyrirgefa Rússum notkun kjarnorkuvopna; að það yrðu endalok forsetans.