Erlent

Að­gerðir lög­reglu sagðar hafa valdið mann­skæðum troðningnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Karlmenn gráta fyrir utan Kanjuruhan-völlinn í Malang þar sem á annað hundrað manns fórust um síðustu helgi.
Karlmenn gráta fyrir utan Kanjuruhan-völlinn í Malang þar sem á annað hundrað manns fórust um síðustu helgi. AP/Dicky Bisinglasi

Táragas sem lögreglumenn létu rigna yfir áhorfendur á knattspyrnuleik í Malang í Indónesíu um helgina er talið kveikjan að miklum troðningi sem varð að minnsta kosti 130 manns að bana. Aðgerðir lögreglu eru sagðar hafa stangast á við innlendar og alþjóðlegar reglur.

Greining Washington Post, sem byggist meðal annars á myndefni frá troðningnum á Kanjuruhan-vellinum, vitnisburðum sjónarvotta og áliti sérfræðinga í stjórnun mannfjölda, bendir til þess að það hafi verið harkaleg viðbrögð lögreglu sem ollu uppþoti í suðurenda vallarins.

Eftir að hundruð áhorfenda hlupu inn á völlinn skutu lögreglumenn að minnsta kosti fjörutíu táragashylkjum inn í mannfjöldann á um tíu mínútna tímabili. Áhorfendur streymdu þá að útgöngum en hundruð tróðust undir í ringulreiðinni sem skapaðist. Fólk ýmist tróðst undir þvögunni eða kramdist upp við veggi og málmhlið vegna þess að sumir útgangarnir voru lokaðir.

Notkun lögreglunnar á táragasi er sögð hafa verið í trássi við verklagsreglur hennar sjálfrar og alþjóðlegra öryggistilmæla fyrir knattspyrnuleiki.

Forseti Indónesíu hefur skipað fyrir um rannsókn á harmleiknum. Hann hefur staðfest frásagnir vitna um að áhorfendur hafi sums staðar komið að læstum hliðum sem hafi aukið enn á glundroðann. Yfirmaður lögreglunnar í Malang og níu undirmenns hans voru reknir vegna aðkomu sinnar að málinu á miðvikudag og átján lögreglumenn eru til rannsóknar.

AP-fréttastofan segir að þrír lögreglumenn og þrír óbreyttir borgarar verði ákærðir vegna dauða áhorfendanna. Á meðal þeirra eru yfirmaður indónesísku knattspyrnudeildarinnar og öryggisstjóri vallarins.

Á meðal þess 131 sem stjórnvöld hafa staðfest að hafi látist voru fjörutíu börn. Mannréttindasamtök telja að tala látinna gæti náð tvö hundruð þegar uppi er staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×