Ekkert ferðaveður verður á sunnudaginn og eru landsmenn eindregið hvattir til að ferðast ekki landshluta á milli. Veðrið verður vest á norðan- og austanverðu landinu þar sem mikil úrkoma og hvassviðri munu ráða ríkjum. Skaplegt veður verður hins vegar á morgun og mánudag.
Stóru handboltamóti sem fram átti að fara á Akureyri um helgina hefur verið frestað. Þá hafa töluverðar tilfæringar orðið á leikjum í Bestu deild karla á sunnudaginn. Sumum flýtt, öðrum frestað. Þá verður engin athöfn í Viðey þegar Friðarsúlan verður tendruð á sunnudag vegna veðursins.
„Við höfum verið að rýna í veðurspána eins og flestir viðbragðsaðilar og höfum verið að skoða hvaða áhrif þetta geti mögulega haft á flutningskerfið. Við erum að fylgjast vel með til að bregðast við ef eitthvað gerist,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Landsnet annast flutning raforku hér á landi með háspennulínum og tengivirkjum um allt land.
„Maður veit aldrei hvenær verður truflun og hvenær ekki. Veðrið lítur ekki vel út núna. Við gætum átt von á ísingu sem gæti haft áhrif á flutningskerfið.“
Með ísingu geta háspennulínur þyngst verulega og orðið til þess að skemmdir verði á línunum eða möstrunum sem bera línurnar landshluta á milli.
„Við erum með aukamönnun í stjórnstöð, úti í mörkinni og metum hvaða tengivirki þarf að manna til að vera með fljótt viðbragð. Svo skoðum við tæki og fleira í þeim dúr.“
Hún hvetur landsmenn til að fylgjast vel með tilkynningum.
„Miðað við spána í dag höfum við mestar áhyggjur af Norðausturlandi. En við munum fylgjast vel með því hvernig veðurspáin þróast.“