Fótbolti

Van Basten kallar Neymar fórnarlamb og grenjuskjóðu

Atli Arason skrifar
Neymar í leiknum gegn Stade Reims í gær.
Neymar í leiknum gegn Stade Reims í gær. Getty Images

Hollendingurinn Marco Van Basten, fyrrum besti leikmaður heims, virðist ekki vera hrifinn af Neymar, leikmanni PSG, sem Van Basten kallar fórnarlamb og grenjuskjóðu.

„Neymar er algjör grenjuskóða sem er alltaf að ögra öðrum. Eina sekúnduna brýtur hann af sér og þá næstu er hann að leika fórnarlambið aftur,“ sagði Van Basten, sem var sérfræðingur hjá Ziggo Sport sjónvarpsstöðinni sem sýndi frá markalausa jafntefli PSG við Stade Reims í frönsku úrvalsdeildinni í gær.

Van Basten fagnar á EM 1988.vísir/getty

Van Basten fór enn þá lengra með því að segjast fagna því ef einhver myndi tækla hann almennilega.

„Það fær enginn leyfi til þess að snerta hann. Ég myndi fagna því ef einhver myndi eiga almennilega við hann. Óþolandi leikmaður á leikvellinum,“ bætti Van Basten við.

Van Basten lék á sínum tíma 281 leiki fyrir AC Milan og Ajax og skoraði í þeim 219 mörk. Hollendingurinn vann til fjölda verðlauna á sínum ferli og fékk meðal annars gullboltann, Ballon d‘Or, sem besti leikmaður heims árið 1988, 1989 og 1992.

Þrátt fyrir óþol Van Basten hefur Neymar byrjað tímabilið vel en Neymar hefur skorað átta mörk ásamt því að leggja upp önnur sjö í tíu deildarleikjum fyrir PSG á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×