Innlent

Minna álag sé samvinnufúsum almenningi og góðum undirbúningi að þakka

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
FotoJet (1)

Verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörg segir góðan undirbúning almannavarna og samvinnufúsan almenning hafa stuðlað að því að verkefni björgunarsveita voru færri en ráð hafði verið gert fyrir vegna óveðursins sem gekk yfir landið í gær og í nótt en þau voru þrjátíu talsins. Veðurfræðingur segir veðurspár hafa ræst að mestu.

Síðustu veðurviðvaranirnar féllu úr gildi klukkan níu í morgun og er það versta yfirstaðið. Óveðrið olli rafmagnstruflunum á Norðurlandi og foktjón varð á Austurlandi. Enn er lítið sem ekkert ferðaveður þar að sögn staðarlögreglu og eru flestar vegalokanir frá í gær enn í gildi.

Á tímabili stefndi í fokskemmdir á íbúðarhúsnæði á Djúpavogi en verkefnið var afgreitt hratt og vel auk þess sem björgunarsveitir þurftu að aðstoða sjúkrabíl á milli Egilsstaða og Neskaupstaðar.

Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörg, segir að björgunarsveitir hafi haft talsvert að gera en þó ekki eins mikið og veðurspár gáfu fyrst til kynna.

„Þessar mótvægisaðgerðir og undirbúningurinn er að skila sér. Fólk er að hlusta og fara eftir þeim fyrirmælum sem almannavarnir og lögregla gefa út og það skilar sér nákvæmlega svona; í færri verkefnum.“

Skráð verkefni eru þrjátíu talsins en björgunarsveitir þurftu líka að manna lokunarpósta þar sem ferðamönnum var snúið við og þeim gefnar ráðleggingar.

„Langflest verkefnin voru á Norðurlandi og Austurlandi og þetta voru aðallega fastir bílar, fokverkefni, verið að aðstoða ferðamenn og svo var eitt dæluverkefni vegna vatnsleka og svo voru mörg verkefni sem við vorum að sinna sem tóku bara gríðarlega langan tíma vegna færðar og veðurs,“ segir Karen Ósk.

Hefur veðrinu slotað?

„Það versta er klárlega gengið yfir. Það er ennþá samt nokkuð hvasst austast á landinu, á Austfjörðum og austarlega undir Vatnajökli en það er samt byrjað að draga úr þessu,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann bendir á að á næstu dögum sé spáð mun rólegra veðri.“

Rættust spárnar?

„Við getum sagt að vindaspáin hafi ræst; vindurinn var nokkurn veginn eftir spánni en það er kannski erfiðara að meta úrkomuna því úrkoma mælist afskaplega illa í svona hvössum vindi en það verður bara að koma í ljós þegar menn fara á stjá núna í dag hversu mikill snjór er á heiðum og svona.“


Tengdar fréttir

Fólk ætti að búa sig undir raf­magns­leysi á morgun

Búist er við miklu ó­veðri fyrir norðan á morgun og hefur Veður­stofan fært appel­sínu­gula við­vörun á svæðinu upp í rauða. Mikill undir­búningur er í gangi á Akur­eyri til að koma í veg fyri flóða­á­stand líkt og skapaðist í bænum fyrir tveimur vikum. Mikil hætta er á raf­magns­leysi á svæðinu á morgun.

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu vegna hættustigs

Björgunarsveitir um allt land eru í viðbragðsstöðu vegna óveðurs sem búist er við að verði á morgun. Rauð viðvörun tekur gildi á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi á morgun og standa fram á næstu nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×