Framkvæmdir hófust í vor og núa að öllu skíðasvæðinu. Tveimur nýjum stólalyftum verður komið fyrir; nýr Gosi og ný Drottning sem munu gjörbreyta upplifun skíðafólks. Unnið er að því að reisa hús undir nýju stólalyfturnar, sem er nýjung.
„Þarna er aðeins breyting frá gömlu lyftunni. Við förum inn í hús til þess að fara í lyftuna. Þetta verður stólageymsla og aðgangur að lyftunni,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla.

Engar raðir
Framkvæmdirnar eru á undan áætlun og segir Einar allt stefna í að svæðið verði tilbúið á næstunni. Hann segir það besta við nýju stólalyfturnar að raðir heyra sögunni til.
„Við gátum flutt rúmlega 3.000 manns áður en erum komin í 7.200 með þessum þremur nýju lyftum. Austurríki hvað?“
Já Austurríki hvað enda segir Einar að á góðum dögum séu Bláfjöll ekki síðri en brekkurnar í Austurríki.

Þessi stólalyfta verður rifin í framkvæmdunum en stólarnir sjálfir fá nýtt líf enda gríðarleg eftirspurn eftir þeim frá almennum borgurum sem vilja eignast skíðastól
„Ég ætla allavegana með einn heim til mín. Er áhugi fyrir þessum stólum? Já fáránlega mikill, maður á eiginlega ekki til orð. Já það er mikill áhugi.“
Hann segir fólk aðallega nota þá sem garðhúsgagn.
„Ég veit um marga sem setja þá í sumarbústaðinn og svo var ég að hjóla í Árbænum um daginn og sá einn stól þar sem er eingöngu notaður til þess að horfa á sólsetrið, þetta er frábær hugmynd.“

Hvenær geta skíðaaðdáendur fengið að prófa þessar nýju lyftur?
„Um leið og þú lofar að segja mér hvenær snjórinn verður kominn, ef þú getur það þá ertu ráðinn í vinnu hérna.“