Hjónin Jón Sveinsson og Eunice Quason voru í banastuði á Joe and the Juice í morgunsárið. Þau eru foreldrar Sveindísar og heldur betur stolt af dóttur sinni.
„Og öllu liðinu, frá A til Ö. Þær eru geggjaðar,“ segir Jón. Það hafi ekki verið erfið ákvörðun að ákveða að fylgja liðinu utan. Jón skellihlær.
„Nei nei, það var ákveðið strax. Svo heyrðum við af þessari pakkaferð og stukkum á hann. Við hefðum alltaf farið út eftir einhverjum leiðum,“ segir Jón. Þau eru hluti af um tíu manna hóp sem styður Sveindísi alla leið. Tengdaforeldrarnir og tengdasonur er þar á meðal.
Eunice, móðir Sveindísar, fagnar spurningu blaðamanns um hvaðan fótboltahæfileikarnir komi.
„Hæfileikana fær hún frá mér, hraðann frá pabba sínum,“ segir hún og ekki hreyfir Jón við mótmælum.
„Ég spilaði fótbolta í Gana þegar ég var lítil, svona frá tólf til fjórtán ára. En á þeim tíma spiluðu stelpur í Gana ekki fótbolta svo foreldrar mínir leyfðu það ekki. Ef ég væri lítil í dag hefði ég ekkert hlustað á þá, en þannig var staðan þá,“ segir Eunice.
Hún hafi elskað að spila fótbolta.
„Ég var eins og strákur, gerði allt eins og strákur.“
Eunice skartar glæsilegum bláum lokkum í tilefni dagsins. Fléttum sem hún gerir ekki mikið úr, hafi bara tekið hana þrjá tíma.
„Ég gerði hverja fléttu fyrir sig og límdi svo á hausinn,“ segir Eunice eldhress. Hún heyrði í dóttur sinni í gær.
„Hún er sko til í slaginn. Ég bað hana um að skora eitt mark fyrir mömmu sína. Ég hugsa að hún geri það,“ segir Eunice. Hún er bjartsýn á sigur og þar með farseðilinn á HM á næsta ári.
„Ég er níutíu prósent viss. Ég hef það á tilfinningunni. Ekki alveg hundrað prósent, en níutíu prósent.“
Jón tekur undir þetta.
„Ekkert öðruvísi. Við erum ekkert að fara þarna öðruvísi en að vinna þetta.“