Erlent

Á þriðja tug hafa farist vegna felli­byljar í Mið-Ameríku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fellibylurinn olli gríðarlegum skemmdum víða í Mið-Ameríku.
Fellibylurinn olli gríðarlegum skemmdum víða í Mið-Ameríku. AP Photo/Inti Ocon

Minnst 28 hafa látist í gríðarlegum rigningum í Mið-Ameríku undanfarna daga. Fellibylurinn Júlía sem gekk yfir svæðið hefur misst kraft sinn en enn rignir mikið í bæði Gvatemala og El Salvador. 

Náttúruhamfarastofnun Gvatemala tilkynnti í gær að fimm hefðu látist eftir að aurskriða féll á íbúðarhús í Alta Verapaz héraðinu. Íbúar hússins grófust undir aurnum og létust samstundis. Í héraðinu Huehuetenango nærri landamærunum að Mexíkó létust níu, þar á meðal hemaður þegar hann var við björgunarstörf. 

Yfirvöld í El Salvador segja þá að fimm hermenn hafi fallist eftir að veggur í húsi, sem þeir sóttu skjól í, hrundi í bænum Comasagua. Tveir til viðbótar létust í bænum Guatajiagua í austurhluta El Salvador eftir að veggur á heimili þeirra féll saman vegna rigninganna. Þá lést annar eftir að vatnsflóð sópaði honum með sér og annar þegar tré féll á hann. 

Ár hafa flætt yfir bakka sína vegna rigninganna en yfirvöld í El Salvador lýstu yfir neyðarástandi vegna veðursins og opnuðu áttatíu fjöldahjálparstöðvar vegna þess. 

Veðurofsinn hefur ekki haldið sig við Gvatamala og El Salvador en kona á þrítugsaldri lést í Hondúras lést þegar vatnsflaumur sópaði henni með sér og þrjú til viðbótar létust þegar bátur þeirra sökk. Maður í Níkaragva lést þá þegar tré féll á hann. 

Júlía kom á land á austurströnd Níkaragva snemma á sunnudag og var þá flokkuð sem fellibylur. Vindhviður náðu mest 40 m/s í Níkaragva. Júlía missti nokkuð styrk sinn á leið yfir landið og var flokkuð sem hitabeltisstormur þegar hún náði yfir landamærin síðdegis á sunnudag. 

Á mánudag var vindur dottinn niður í 15-20 m/s en það voru aðallega gríðarlegar rigningar sem sköpuðu neyðarástand í Mið-Ameríku. Þeim hafa fylgt bæði flóð og aurskriður í gær og í morgun en spár segja að allt að 40 sentímetrar af regni hafi fallið. 

Á annan tug þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín á svæðinu og leita skjóls í fjöldahjálparstöðvum vegna veðursins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×