Innlent

Rann­saka meðal annars hvort ein­hver hafi veitt konunni á­verkana

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mönnunum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær.
Mönnunum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur meðal annars til rannsóknar hvort einhver hafi veitt konu, sem fannst látin í Laugardal um helgina, áverka sem fundust á líki hennar. Áverkarnir urðu til þess að lögregla hóf rannsókn með það í huga að konunni hafi verið banað og handtók tvo menn tengda henni.  

Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu í samtali við fréttastofu. Tveir menn á fimmtugsaldri voru handteknir um helgina grunaðir uum að hafa orðið konu á sextugsaldri að bana. Þeim var sleppt úr haldi í gær en niðurstaða réttarmeinafræðings var sú að áverkar sem voru á hinni látnu hafi ekki leitt til andláts hennar. 

Ekki er því lengur grunur um að andlátið hafi borið að með refsiverðum hætti. Fram kom í tilkynningu frá lögreglu í gær að við skoðun lögreglu og réttarmeinafræðings á vettvangi í upphafi málsins hafi komið fram „margir óljósir þættir“ sem þarfnist frekari skoðunar.

Grímur segir í samtali við fréttastofu að aðkoman hafi litið þannig út, þegar lögregla var kölluð til, að rannsaka þyrfti málið betur. Meðal annars sem rannsaka hafi þurft betur hafi verið áverkar á líki konunnar sem réttarmeinafræðingur hafi nú útilokað að hafi dregið hana til dauða. 

Inntur að því hvort grunur leiki á um að einhver annar hafi veitt konunni áverkana segir Grímur það eitt af því sem sé til skoðunar. 

Einhver tími er enn í að endanleg niðurstaða úr réttarkrufningu berist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×