Fótbolti

Mbappe telur að PSG hafi svikið sam­komu­lagið við sig: Gerði mis­tök í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fékk ekki það sem forráðamenn Paris Saint-Germain lofuðu honum.
Kylian Mbappe fékk ekki það sem forráðamenn Paris Saint-Germain lofuðu honum. AP/Armando Franca

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um óánægju franska framherjans Kylian Mbappe og að hann vilji komast í burtu frá París þrátt fyrir að hann sé nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Fréttirnar af því að Mbappe vildi fara frá félaginu í janúar komu fram í evrópskum fjölmiðlum í gær en breska ríkisútvarpið hefur það eftir Luis Campos, íþróttastjóra PSG, að leikmaðurinn hafi aldrei talað um að vilja fara í janúarglugganum.

Franski fótboltasérfræðingurinn Julien Laurens sagði aftur á móti frá því sem hann veit um óánægju Mbappe í viðtali við BBC Radio 5 Live.

Vandamálið er það sem forráðamenn Paris Saint Germain sögðu við hann þegar Mbappe skrifaði undir nýjan þriggja ára samning í maí.

„Honum finnst að félagið hafi svikið sig hvað það sem honum var lofað þegar hann skrifað undir nýjan samning til ársins 2025,“ sagði Julien Laurens.

„Þeir lofuðu honum að kaupa nýjan framherja svo hann fengi að sína spila sína bestu stöðu til hliðar við framherjann, að Neymar yrði seldur, að þeir myndu kaupa miðvörð og Mbappe yrði miðpunktur alls. Ekkert af þessu hefur gerst,“ sagði Laurens.

„Við vissum að það væri spenna og núna hefur hann tekið ákvörðun. Hann vill ekki vera þarna lengur. Honum finnst hann hafa gert mistök með því að skrifa undir nýjan samning og að hann hefði átt að fara í sumar. Nú vill hann fara í janúarglugganum,“ sagði Laurens.

Mbappe hefur unnið ellefu titla með PSG síðan hann kom frá Mónakó árið 2018 þar af eru fjórir franskir meistaratitlar.

Mbappe vill helst komast til Real Madrid en spænska stórliðið er vissulega eitt af fáum félögum sem hefur efni á að bæði kaupa hann frá PSG og borga hans ofurlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×