Þetta segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, um þau áform Hafrannsóknastofnunar að loka starfstöð stofnunarinnar í Ólafsvík.
Kristinn segir að fulltrúar sveitarfélagsins hafi nú þegar átt fundi með Þorsteini Sigurðssyni, forstjóra Hafró, og þingmönnum Norðvesturkjördæmis þar sem óánægjunni var komið á framfæri. Þá munu þeir eiga fund með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra á mánudaginn.
„Við munum gera allt til að reyna að snúa þessu við, reyna að tryggja okkur stuðning ráðherra og þingmanna þannig að þetta gangi ekki eftir,“ segir Kristinn.
Stangast á við stefnu ríkisstjórnarinnar
Bæjarstjórinn segir sömuleiðis að þessi áform stangist á við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum á landsbyggðinni.
Kristinn rifjar upp að í sjávarútvegsráðherratíð Gunnars Braga Sveinssonar, árið 2016, hafi verið samið um samstarf tveggja vísindastofnana í Ólafsvík – Hafrannsóknastofnunar og sjávarrannsóknarsetursins Varar – og þar hafi verið stefnt að því að tryggja fimm störf í Ólafsvík tengdum starfseminni.
Skessuhorn sagði frá því í gær starfsmanni Hafró í Ólafsvík hefði borist bréf um að starfsstöðinni þar yrði lokað frá og með 1. janúar 2023, vegna uppsagnar á samningi um reksturinn. Kæmi fram í bréfinu að undirbúningur lokunarinnar væri þegar hafinn og að starfsmanninum hafi verið boðið starf á annarri starfstöð stofnunarinnar.
Áhersla á vistkerfi Breiðafjarðar
Á heimasíðu Hafró segir um starfstöðina í Ólafsvík, sem staðsett er við höfnina að Norðurtanga, að sérstök áhersla sé lögð á vistkerfi Breiðafjarðar í rannsóknum starfsmanna þar.
„Meðal verkefna er regluleg umhverfisvöktun þar sem rýnt er í grunnstoðir vistkerfisins með mælingum á efnaþáttum og frumframleiðslu. Einnig fara fram rannsóknir á svifþörungum, svifdýrum og fæðuvef. Starfsmenn taka einnig þátt í gagnasöfnun úr afla sem eru nýtt í stofnmatsráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Þá eru starfsmenn oft þáttakendur í ýmsum rannsóknum á umhverfisáhrifum af framkvæmdum og nýtingu á Breiðafjarðarsvæðinu,“ segir á vef Hafró.
Áður hefur komið fram að Hafró hafi gengið erfiðlega að manna starfstöðina og sömuleiðis að takmarkað fjármagn réði því að ákveðið hafi verið að loka starfstöðinni.