Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi mannsins, staðfestir niðurstöðuna við Vísi. Hinn karlmaðurinn, sem hefur sætt einangrun síðan þeir voru handteknir fyrir þremur vikum, er í dómsal sem stendur og bíður niðurstöðu dómara.
Fram kom á dögunum að karlmennirnir tveir hefðu í samtölum sín á milli haft í flimtingum að bana sósíalistunum Gunnari Smára Egilssyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá komu nöfn þingmanna og fyrrverandi þingmanna Pírata upp í samtölum þeirra.
Viðkomandi hafa verið kölluð til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vegna málsins og upplýst um þessi mál. Áður hafði lögregla greint frá því að karlmennirnir hefðu rætt að fremja hryðjuverk á árshátíð lögreglumanna.
Hámarkslengd gæsluvarðhalds hér á landi án þess að búið sé að gefa út ákæru er tólf vikur.
Uppfært klukkan 17:07
Báðir karlmennirnir hafa verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald.