Umfjöllun og viðtal: ÍBV - Ionias 27-22 | ÍBV áfram í sextán liða úrslit í Evrópu

Einar Kárason skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sex mörk í dag.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sex mörk í dag. Hulda Margrét

ÍBV tók á móti Ionias frá Grikklandi í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta. Fyrri leikurinn endaði með eins marks sigri Ionias en ÍBV vann leik dagsins með fimm mörkum, 27-22, og eru því komnar áfram.

Eftir klaufalegt tap í gær voru Eyjastúlkur staðráðnar í því að gera betur í dag. Þær höfðu gott forskot undir lok leiks í fyrri leiknum en fóru illa af ráði sínu sem varð til að það voru Grikkirnir sem komu inn í leik dagsins með mark í hönd.

Leikurinn í dag fór skemmtilega af stað og mun meiri hraði í leiknum miðað við fyrri leikinn. Liðin skiptust á að skora í upphafi og var staðan 6-6 eftir tíu mínútur. Við tók þá góðum kafli hjá Eyjaliðinu sem skoraði næstu fjögur mörk. Það dró örlítið úr markaskorun um miðjan hálfleikinn og mikið var um tapaða bolta hjá báðum liðum ásamt því að markvarsla var í fínu lagi, þá sér í lagi hjá ÍBV. 

Eyjastúlkur fóru nokkrum sinnum illa með góð færi og hefðu hæglega getað aukið forskot sitt enn frekar en þegar farið var inn í hálfleikinn var munurinn fjögur mörk, 15-11.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað hvað markaskorun varðar áður en gestirnir brutu ísinn. Við það tók ÍBV við sér og skoraði sex mörk gegn tveimur og staðan 21-14 þegar stundarfjórðungur var eftir. Eyjastúlkur léku næstu mínútur af mikilli fagmennsku og gerðu vel í sínum aðgerðum og héldu þær forskoti sínu betur en þær höfðu gert í fyrri leiknum. Markvarsla og vörn stóðu vaktina vel ásamt því að gott flæði var í sóknarleiknum. 

Munurinn milli liðanna varð mestur sjö mörk en þegar sextíu mínútur voru liðnar var staðan 27-22. Fimm marka sigur ÍBV sem þýðir að þær eru komnar áfram í sextán liða úrslit Evrópubikars kvenna.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjaliðið náði mun betri takti en þær gerðu í fyrri leiknum. Betra flæði í sóknarleik ásamt því að markvarsla var til fyrirmyndar.

Hverjar stóðu upp úr?

Marta Wawrzynkowska átti frábæran leik í marki ÍBV, með átján varða bolta. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sex mörk en henni næst var Birna Berg Haraldsdóttir með fimm. Vörn ÍBV, rétt eins og í gær stóð vaktina með prýði.

Nikolina Kepesidou var atkvæðamest í liði Ionias með sex mörk. Natasa Krnic gerði fimm. Magdalini Kepesidou varði alls tólf skot í markinu.

Hvað gekk illa?

Lið gestanna átti í erfiðum með að skapa sér jafn góð færi og þær gerðu í gær. Marta tók þá bolta sem hún átti að taka og gat ÍBV refsað með hröðum sóknum.

Hvað gerist næst?

ÍBV er komið áfram í sextán liða úrslit. Spennandi að sjá hverjir mótherjar þeirra verða.

Sigurður: Spiluðum með bros á vör

Sigurður var ánægður að leikslokum.Vísir/Vilhelm

,,Ég er stoltur af stelpunum og er rosalega glaður," sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, spurður út í svar sinna stúlkna eftir fyrri leikinn í gær. ,,Mér fannst við henda þessu frá okkur í gær. Mér fannst við betri en fórum í einhverja örvæntingu síðasta korterið og ég var spenntur að sjá hvernig stelpurnar myndu svara. Þeim langar ógeðslega mikið að taka eina umferð í viðbót. Þetta var flottur leikur hjá okkur."

,,Við gerðum litlar breytingar. Við stigum betur út þessa númer ellefu og leyfðum henni ekki að hafa þennan þægindaramma sem hún hafði í gær. Við keyrðum meira á þær og fórum taktískt í hraðaupphlaupskerfi sem gekk vel upp. Svo er það að skjóta boltanum framhjá markmanninum, það er ágætis regla. Hún var frábær í gær svo við skoðuðum hana aðeins og það gekk vel. Það voru engar stórkostlegar breytingar."

Betri handbolti

,,Gæðin okkar voru mikil. Markvarslan góð og vörnin frábær. Það voru ekki miklir tæknifeilar sem er einn punktur. Þú ert stressaður í bikarleikjum og það koma feilar, sem komu ekki hjá okkur í dag. Þetta var flottari handbolti. Við spiluðum með bros á vör. Það er svolítið sem hefur vantað. Þetta á að vera gaman og þetta var þannig."

,,Við vorum komnar yfir (í gær) og það sáu allir hvað við vorum yfirspenntar. Við koksuðum á því og vorum stressaðar. Við settum okkur takmark í dag og ætluðum að vinna með sjö til átta mörkum en ekki horfa á þetta eina mark. Það er hættulegt að ætla að vinna með tveimur. Okkur tókst að vinna stórt og það var engin hætta þó þær skoruðu tvö í röð. Mér fannst úrslitin aldrei í vafa."

Stuttbuxur og sól

,Spánn," sagði Sigurður glottandi, spurður út í óskamótherja. ,,Mér líður best í stuttbuxunum á Spáni. Neinei, þetta verður vonandi Ítalía, Spánn, Portúgal. Ég er til í að fara einhvert þar sem er heitt og nóg af golfvöllum nálægt. Það er draumadrátturinn." 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira