Fótbolti

Dag­ný skoraði í dramatískum sigri Hamranna | Wolfs­burg á­fram á sigur­braut

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn West Ham United fagna marki Dagnýjar Brynjarsdóttur í dag.
Leikmenn West Ham United fagna marki Dagnýjar Brynjarsdóttur í dag. Harriet Lander/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir, fyrirliði West Ham United, skoraði fyrra mark liðs síns í naumum 2-1 sigri á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir lék stundarfjórðung í sigri Wolfsburg sem jók forystu sína á toppi deildarinnar.

Dagný kom Hömrunum yfir strax á annarri mínútu leiksins og ekki löngu síðar tvöfaldaði Honoka Hayashi forystuna. Staðan orðin 2-0 og sigur West Ham svo gott sem kominn í hús, eða hvað?

Staðan var 2-0 í hálfleik en á 73. mínútu fékk heimaliðið vítaspyrnu. Alisha Lehmann fór á punktinn en brenndi af. Það stöðvaði ekki Villa-konur og minnkaði Kenza Dali muninn skömmu síðar. 

Hawa Cissoko fékk svo rautt spjald í liði West Ham í þann mund sem venjulegur leiktími rann út en alls var tíu mínútum bætt við.

Dagný og stöllur hennar héldu hins vegar út og fóru með stigin þrjú heim til Lundúna. Hamrarnir hafa nú leikið fjóra leiki, tveir hafa unnist og tveir hafa tapast. Liðið situr í 6. sæti deildarinnar með sex stig.

Í Þýskalandi var Sveindís Jane Jónsdóttir á varamannabekk Wolfsburg er liðið sótti Potsdam heim. Sveindís Jane spilaði 15 mínútur í 2-0 sigri. Alexandra Popp og Ewa Pajor með mörkin.

Wolfsburg er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 12 stig á meðan Íslendingalið Bayern München er í öðru sæti með sjö stig og leik til góða.

Alexandra Jóhannsdóttir spilaði nær allan síðari hálfleikinn þegar Fiorentina vann 1-0 útisigur á Pomgliano. Fiorentina er sem stendur í öðru sæti deildarinnar með 15 stig að loknum sex umferðum, stigi minna en topplið Inter.

Alexandra Jóhannsdóttir er leikmaður Fiorentina og spilar því í fjólubláu næstu misseri.ACF Fiorentina



Fleiri fréttir

Sjá meira


×