„Það er enn þá aðeins að hækka vatnsyfirborðið í ánni en hún getur tekið ansi vel við svo það er ekkert hættulegt. Þetta verður væntanlega mjög lítið í ánni og svo er ekki kominn neinn gosórói. Það er ekkert sem bendir til að það fari að gjósa akkúrat núna,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.
Lítið hafi komið á óvart í þessum efnum enda gert ráð fyrir að aðeins yrði um lítið flóð að ræða. Líkt og fram kom í gær hefur íshellan í Grímsvötnum sigið um fimmtán metra frá því að hlaup hófst fyrir um viku síðan.
Fyrst talið að hlaupið næði hámarki á miðvikudag
Mögulegt er að hámarksrennsli hafi runnið undan Grímsvötnum í nótt. Eiga náttúruvársérfræðingar von á því að flóðatoppurinn sjáist í Gígjukvísl í kjölfarið og að íshellan muni mögulega lækka um örfáa metra í viðbót.
Fyrst um sinn var talið að rennslið í Gígjukvísl næði hámarki á miðvikudag. Óvissustigi almannavarna vegna mögulegs jökulshlaups úr Grímsvötnum var lýst yfir á mánudag en síðar aflýst.