Fótbolti

De Jong ó­sáttur hjá Barcelona | Liver­pool hefur á­huga

Atli Arason skrifar
Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona.
Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Hollendingurinn Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona, er sagður óánægður með stöðu sína hjá Barcelona og farinn að íhuga að brottför frá félaginu.

Leikmaðurinn var helsta umræðuefnið í félagaskiptaglugganum í sumar en lengi var talið að hann myndi fara til Manchester United. Barcelona og Manchester United náðu samkomulagi um kaupverð á leikmanninum en De Jong vildi sjálfur ekki yfirgefa Barcelona. Nú er hins vegar staðan önnur og Liverpool hefur blandað sér í kapphlaupið um De Jong miðað við nýjustu tíðindi frá Englandi.

Liverpool hefur verið að leita sér að nýjum miðjumanni undanfarið. Félagið var á eftir Aurelien Tchouameni í sumar sem á endanum valdi Real Madrid fram yfir Liverpool. Þá sótti félagið Arthur Melo á lánssamningi frá Juventus á lokadegi félagaskiptagluggans en Arthur meiddist skömmu síðar og verður frá keppni í allt að fjóra mánuði.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur þó enn þá áhuga á leikmanninum þrátt fyrir að hann neitaði United í sumar. Það gæti því stefnt í áhugaverða baráttu Liverpool og Manchester United um undirskrift De Jong í janúar.

Ósáttur með framkomu Barcelona

Barcelona vildi losna við De Jong í félagaskiptaglugganum í sumar en De Jong hefur greint frá því að bæði knattspyrnustjóri liðsins, Xavi, og forseti félagsins, Joan Laporta, þrýstu á hann að yfirgefa félagið.

Á þessu tímabili hefur De Jong oftar en ekki þurft að sætta sig við að koma inn af varamannabekk Barcelona og það angrar Hollendinginn að fá ekki að taka þátt í mikilvægum leikjum félagsins. 

Frenkie de Jong er hins vegar í byrjunarliði Barcelona sem mætir Real Madrid í stærsta leik Spánar. Leikurinn hefst klukkan 14.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×