Sport

Mari var farin að sjá ofsjónir: „Er ofurhetja“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mari Järsk var sjöunda konan á heimsvísu þegar hún þurfti að hætta keppni eftir að hafa hlaupið í rúmlega einn og hálfan sólarhring.
Mari Järsk var sjöunda konan á heimsvísu þegar hún þurfti að hætta keppni eftir að hafa hlaupið í rúmlega einn og hálfan sólarhring. Vísir/Sigurjón

Ofurhlaupakonan Mari Järsk varð að sætta sig við við annað sæti í bakgarðshlaupi í Elliðaárdal um helgina. Í boði var að vinna sér þátttökurétt á heimsmeistaramóti einstaklinga í bakgarðshlaupum í Tennessee í Bandaríkjunum í október á næsta ári.

Garpur I. Elísabetarson ræddi við Olgu Kristrún Ingólfsdóttur, einn af liðstjórum Mari, eftir að Mari lauk keppni upp úr miðnætti í nótt. Mari náði ekki í mark á 37. hring keppninnar. Þá hafði hún hlaupið rúmlega 241 kílómetra og aðeins þau Þorleifur Þorleifsson eftir í keppninni af Íslendingum.

„Hún er ólík sjálfri sér og það er bara spurning hvort við þurfum ekki að fara og láta kíkja á hana. Hún er mjög vönkuð og hún er illa áttuð. Við erum að hlúa að henni, reynum að láta hana skipta um föt og koma hita í hana. Ég held að það sé næsta skref að láta lækni kíkja á hana,“ sagði Olga í nótt.

En kom eitthvað upp á hjá henni í brautinni?

„Hún datt í brautinni á síðasta hring og það má ekki hjálpa henni. Hún man ekkert eftir því hvort hún hafi dottið eða ekki og hún var farin að sjá ofsjónir. Hún lagði allt sitt í þetta, blóð svita og tár eins og hún ætlaði,“ sagði Olga.

„Þetta er búnar að vera erfiðar aðstæður og allt öðruvísi keppnir heldur en hinar tvær keppnirnar sem hún hefur unnið. Það má samt ekki gleyma því að þetta er frábær árangur og þegar ég skoðaði tölurnar áðan þá var hún sjöunda konan á heimsvísu,“ sagði Olga.

„Hún lagði eins og ég sagði blóð svita og tár í þetta. Hún er bara ofurhetja. Það sem skiptir máli núna er að hlúa vel að henni og gefa henni þann styrk sem hún þarf á að halda. Þetta er bara rétt að byrja og hún á nóg eftir. Það þurfa allir að læra að tapa,“ sagði Olga.

Mari hafði þarna klárað einn og hálfan sólarhring og það var frábær stemmning í kringum hana allan tímann. Næst á dagskrá er að keppa út í Þýskalandi í maí.

Það má sjá allt viðtalið við Olgu hér að ofan.


Tengdar fréttir

„Fann að maður vildi ekki svíkja alla“

„Maður var alveg að bugast [eftir að hafa hlaupið í þrettán klukkutíma í myrkri] en maður veit að sólin kemur upp,“ sagði Þorleifur Þorleifsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í bakgarðshlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×