Handbolti

Ómar Ingi er mættur aftur: Allt leit vel út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon getur spilað með Magdeburg í heimsmeistarakeppni félagsliða sem hefst í þessari viku.
Ómar Ingi Magnússon getur spilað með Magdeburg í heimsmeistarakeppni félagsliða sem hefst í þessari viku. Getty/Nikola Krstic

Ómar Ingi Magnússon gat ekki spilað með íslenska landsliðinu í handbolta í leikjunum tveimur í undankeppni EM en hann dró sig út úr hópnum af persónulegum ástæðum.

Magdeburg fagnar því á heimasíðu sinni í dag að Ómar Ingi sé kominn aftur í slaginn og allt hafi litið vel út hjá honum.

Þetta eru frábærar fréttir því Ómar er ekki aðeins einn besti leikmaður Íslands heldur einnig einn sá besti í þýsku deildinni.

Ómar Ingi verður því með þýska liðinu í heimsmeistarakeppni félagsliða í Sádí Arabíu sem hefst á morgun.

Í fréttinni á heimasíðu Magdeburg kemur fram að Ómar hafi gengist undir ítarlega læknisskoðun sem og aðrar rannsóknir á Íslandi af eigin ósk. Þar segir líka að sem betur fer hafi niðurstöðurnar úr þeim verið jákvæðar fyrir þennan frábæra handboltamann.

Ómar er því kominn með grænt ljós að byrja að æfa og spila á nýjan leik.

Hann er samt ekki alveg laus allra mála því mögulegt er að Ómar þurfi að gangast undir fyrirbyggjandi aðgerð fljótlega. Ómar yrði samt ekki lengi frá vegna hennar samkvæmt fréttinni á heimasíðu Magdeburgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×