Valur og Breiðablik mættust á Hlíðarenda en Kópavogspiltar hafa byrjað tímabilið vel í Subway deildinni. Íslandsmeistarar Vals sýndu hins vegar í kvöld hverjir með valdið fara, lokatölur 111-90 og Valur áfram í 16-liða úrslit.
Kristófer Acox fór fyrir sínum mönnum í Val en hann skoraði 24 stig, tók 16 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Kári Jónsson skoraði 19 stig og gaf 11 stoðsendingar. Hjá Blikum var Jeremy Herbert Smith með 22 stig.
Á Króknum voru Haukar í heimsókn en þeir höfðu byrjað Subway deildina á tveimur sigurm. Líkt og á Hlíðarenda reyndist heimaliðið mun sterkara, lokatölur 88-71. Antonio Keyshawn Woods var stigahæstur í liði Stólanna með 27 stig, þar á eftir kom Taiwo Hassan Badmus með 25 stig. Hilmar Smári Henningsson var atkvæðamestur í liði Hauka með 20 stig.
Keflavík lagði lærisveina Kjartans Atla Kjartanssonar í Álftanesi, lokatölur þar 94-75 Keflavík í vil. Eric Ayala var stigahæstur í liði Keflavíkur með 16 stig.
Selfoss lagði ÍA á Akranesi, lokatölur 77-63 gestunum í vil. Njarðvík pakkaði svo nágrönnum sínum í Þrótti Vogum saman, lokatölur 110-77. Mario Matasovic var stigahæstur í liði Njarðvíkur með 23 stig.