Erlent

Fordæma drónaárásir Rússa á óbreytta borgara

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum í Kænugarði í morgun, eftir að dróni hæfði íbúðarhús í borginni.
Slökkviliðsmenn að störfum í Kænugarði í morgun, eftir að dróni hæfði íbúðarhús í borginni. AP/Roman Hrytsyna

Hvíta húsið fordæmdi í dag sjálfsprengidrónaárásir Rússa á borgaraleg skotmörk í borgum og bæjum Úkraínu. Talskona Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi að Bandaríkjamenn myndu standa áfram við bakið á Úkraínumönnum og að Rússar myndu gjalda fyrir stríðsglæpi þeirra í Úkraínu.

Fjórir létu lífið í árásum þessum á Kænugarð í morgun og þar á meðal ungt par og ólétt kona. Þar að auki hafa fleiri dáið í öðrum borgum landsins en samkvæmt frétt Reuters liggja frekari upplýsingar ekki fyrir enn.

Sjá einnig: Ungt par meðal látnu í Kænugarði

Drónarnir sem Rússar hafa notað til þessara árása kallast Shahed-136 og eru þróaðir og framleiddir í Íran.

Drónar þessir eru hannaðir til að fljúga á skotmörk eins og skrið- og bryndreka og varnarbyrgi og springa í loft upp. Þeir eru ekki gífurlega hraðskreiðir en geta verið lengi á lofti, sjást illa á ratsjám og er þess vegna erfitt að skjóta þá niður.

Rússar eru sagðir hafa keypt hundruð þeirra frá Íran og segja Úkraínumenn að Rússar vilji kaupa nokkur þúsund til viðbótar.

Sjá einnig: Pútín segist ekki sjá eftir neinu

Í meðfylgjandi tísti frá því í síðasta mánuði má sjá hvernig Shahed-136 drónarnir virka.

Ráðamenn Í Bandaríkjunum, Bretlandi og í ríkjum Evrópusambandsins hafa lýst því yfir í dag að með því að útvega Rússum þessa dróna sé ríkisstjórn Írans að brjóta gegn kjarnorkusamkomulaginu svokallaða og gegn samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Kjarnorkusamkomulagið var gert á milli Írans, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Írans. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Írans að þróa ekki kjarnorkuvopn og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Donald Trump dró Bandaríkin úr samkomulaginu árið 2018 en undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður um að endurvekja það. Þær viðræður hafa gengið erfiðlega að undanförnu en forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa ákveðið að beita Írana refsiaðgerðum vegna harkalegra viðbragða við mótmælum þar í landi.

Í frétt Guardian segir að líklegast verði viðræðum hætt á meðan Íranar halda áfram að útvega Rússum vopn.

Bandaríkjamenn hafa sagt að til standi að grípa til aðgerða gegn fyrirtækjum og ríkjum sem hafi komið að vopnaþróun Írans að undanförnu, bæði varðandi eldflaugar, sem Rússar eru einnig sagðir vilja kaupa, og dróna.

Hér má sjá myndband af úkraínskum lögregluþjónum reyna að skjóta niður Shahed-136 dróna í morgun.


Tengdar fréttir

Röð drónaárása í Kænugarði í morgun

Loftvarnarflautur hljómuðu í Kænugarði í morgun og í kjölfarið heyrðist röð sprenginga sem ráðamenn segja hafa verið af völdum íranskra svokallaðra „kamikaze“ dróna, sem geta hangið í loftinu yfir skotmarki sínu í nokkurn tíma áður en þeir þeytast til jarðar og springa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×