Fótbolti

Newcastle ósigrað í síðustu sex | Southampton upp úr fallsæti

Atli Arason skrifar
Leikmenn Newcastle fagna sigurmarki Almirón.
Leikmenn Newcastle fagna sigurmarki Almirón. Getty Images

Newcastle og Southampton unnu bæði eins marks sigur í sínum viðureignum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Newcastle er nú aðeins tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti á meðan Southampton forðast fallsvæðið.

Miguel Almirón skoraði eina mark Newcastle í 1-0 sigri á Everton. Markið skoraði Almirón á 31. mínútu eftir undirbúning Bruno Guimarães.

Varnarleikur Newcastle var öflugur sem áður en Everton átti ekkert skot á markramma heimamanna í leiknum á meðan Newcastle náði fjórum. Fór því svo að mark Almirón dugði Newcastle til sigurs. Newcastle er því áfram ósigrað, frá því að liðið tapaði gegn Liverpool á síðasta degi ágúst mánaðar.

Eftir sigurinn er Newcastle í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir 11 leiki, aðeins tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti. Everton er á sama tíma í 15. sæti með 11 stig, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið eftir 11 leiki.

Ché Adams skallar inn sigurmark Southampton.Getty Images

Í Bournemouth vann Southampton 0-1 sigur þökk sé marki Ché Adams sem skoraði með kollspyrnu á 9. mínútu. Ósigur Bournemouth var sá fyrsti undir stjórn bráðabirgðastjórna liðsins, Gary O‘Neil.

Með sigrinum fer Southampton úr fallsæti og upp í það 14. með 11 stig á meðan Bournemouth er í 11. sæti með 13 stig. Bæði lið hafa leikið 11 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×