Innlent

Reif sig úr að ofan á veitinga­stað

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan ók manni heim í gær eftir að kvartað var undan hegðun hans inni á veitingastað. Meðal annars hafði maðurinn rifið sig úr að ofan. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjallað er um mál lögreglunnar frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt. 

Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem er Austurbær, Vesturbær, miðbær og Seltjarnarnes, var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun. Þjófarnir voru báðir undir lögaldri og málið afgreitt með aðkomu foreldra. Tilkynning var send á Barnavernd vegna málsins. 

Þá var ekið á dreng á reiðhjóli. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til aðhlynningar. Meiðsli hans voru minniháttar. 

Í umdæmi lögreglustöðvar 3, Kópavogi og Breiðholti, voru tveir ökumenn handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Annar þeirra olli umferðarslysi og gistir fangageymslu. Hinn var laus eftir sýnatöku. Báðir voru þeir kærðir fyrir önnur brot til viðbótar en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvaða brot það eru. 

Í umdæmi lögreglustöðvar þrjú, sem sér um Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ, var tilkynnt um laust hross. Lögreglan fól starfsmanni viðkomandi sveitarfélags að ganga frá málinu. Þá var tilkynnt um hugsanlega ölvaðan ökumann. Lögregla fann viðkomandi og reyndist hann allsgáður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×