Erlent

Kven­kyns utan­ríkis­ráð­herrar funda vegna Íran

Bjarki Sigurðsson skrifar
Miðillinn The Guardian segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, verði á fundinum. 
Miðillinn The Guardian segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, verði á fundinum.  Vísir/Vilhelm

Fimmtán kvenkyns utanríkisráðherrar ríkja um allan heim munu funda í dag vegna stöðu kvenna og mannréttinda í Íran. Utanríkisráðherra Íslands er sagður taka þátt í fundinum.

Það er Melanie Joly, utanríkisráðherra Kanada, sem stendur fyrir fundinum en hún segir að hún muni funda í gegnum fjarfundabúnað með fjórtán öðrum kvenkyns utanríkisráðherrum í dag. Hún segir fundinn vera tækifæri til að samhæfa aðstoð ríkja til Íran. 

The Guardian staðhæfir að utanríkisráðherrar Noregs, Þýskalands, Síle og Nýja-Sjálands taki þátt í fundinum. Þá telur miðillinn að utanríkisráðherrar Albaníu, Andorra, Mið-Afríkulýðveldisins, Kósóvó, Líbíu, Liechtenstein, Mongólíu, Panama og Íslands taki einnig þátt. 

„Ég og kollegar mínir söfnumst saman til að senda skýr skilaboð. Íranska klerkastjórnin mun þurfa að binda endi á allt ofbeldi og allar ofsóknir gegn írönsku þjóðinni, þar á meðal grimmilegar árásir þeirra gegn konum,“ hefur The Guardian eftir Joly. 

Mótmælaöldunni í Íran hefur ekki lægt síðustu daga. Mótmælin hófust eftir að hin 22 ára gamla Mihsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Hún hafði verið handtekin fyrir að notast ekki við slæðu á almannafæri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×