Hann var spurður að því hvað hans menn hefðu gert rétt í kvöld til að sækja sigurinn.
„Við spiluðum bara af hörku í dag. Í hvert skipti sem við vorum með boltann gerðum við vel og vorum mjög árvökulir. Náðum í lausa bolta þegar við þurftum og náðum í stopp þegar við þurftum á því að halda. Vörnin hélt okkur á floti í dag og hefur verið að gera það.“
Þó varnarleikurinn hafi verið sterkur hjá Keflvíkingum í kvöld þá var sóknin mjög skilvirk og fengu Keflvíkingar stig úr mörgum áttum. Það hlýtur að vera þægilegt að vera í þannig liði.
„Algjörlega. Margir sem stigu upp, sérstaklega þegar það vantaði aðal leikstjórnandann [Hörð Axel Vilhjálmsson]. Það er mjög gott að sjá það og að við missum ekki taktinn við meiðslin hans. Við viljum bara halda áfram eftir því plani sem þjálfarinn leggur upp.“
Eric Ayala skoraði eins og áður segir 28 stig en hann hitti úr fimm af níu þriggja stiga skotum sínum. Hann var spurður að því hvaða skipanir hann sjálfur væri að fá frá Hjalta þjálfara en það lítur út fyrir að vera mjög létt verk fyrir hann að sækja körfur.
„Ég á bara að vera ég sjálfur. Ég á að fara þarna út og lesa í leikinn og vera árásargjarn. Við erum svo bara að reyna að vinna þegar öllu er á botninn hvolft. Það skiptir mig mestu máli ef ég á að vera hreinskilinn og reyni bara að hjálpa liðinu að vinna.“
Að lokum var Ayala spurður út í hvernig honum litist á deildina nú þegar þrjár umferðir væru búnar.
„Mér líst vel á hana. Liðin eru vel samkeppnishæf og hvert lið er ný áskorun út af fyrir sig. Við erum með mikið af góðum leikmönnum og fáum nýja áskorun í hverjum leik. Það er mikilvægt fyrir okkur að fara út á völlinn og spila okkar leik. Ef við gerum það þá eigum við góða möguleika á sigri.“