Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og virtist lítið geta skilið þau að. Liðin skiptust á að skora og munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Rut Jónsdóttir skoraði seinasta mark hálfleiksins fyrir gestina að norðan og staðan var því 13-14, KA/Þór í vil þegar gengið var til búningsherbergja.
Áfram ríkti jafnræði með liðunum framan af í síðari hálfleik, en þegar rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka fóru heimakonur í HK að sigla fram úr. Þær breyttu stöðunni úr 17-17 í 20-17 og unnu svo að lokum nokkuð öruggan sex marka sigur, 28-22.