Rushdie er 75 ára gamall og var meðal annars lýstur réttdræpur í Íran á níunda áratugnum eftir að hafa gefið út skáldsöguna Söngvar Satans. Bókin hefur alla tíð vakið mikla reiði heittrúaðra múslima. Í Íran er bókin stranglega bönnuð vegna þeirrar myndar sem dregin er upp af Múhameð spámanni.
Umboðsmaður rithöfundarins, Andrew Wylie, segir þá reglulega hafa rætt um hættuna sem Rushdie hefur verið talinn í. Hann hefur mátt sæta stöðugum lífslátshótunum síðustu áratugi. Rithöfundurinn sagði í viðtali tæpum tveimur vikum fyrir árásina að hann bæri höfuðið hátt og tilfinningin væri sú að hættan væri hjá liðin.
Umboðsmaðurinn segir í samtali við El País að árásin hafi verið svo skyndileg að engin leið hafi verið að koma í veg fyrir hana. Lítið hefur verið gefið upp um ástand rithöfundarins, þar til nú, en Wylie vildi ekki gefa upp hvort Rushdie lægi enn á sjúkrahúsi. Mestu máli skipti að hann væri á lífi.
„[Sárin] voru djúp og hann hefur einnig misst sjón á öðru auga. Hann hlaut þrjú alvarleg stungusár á hálsi og var stunginn 15 sinnum í brjóst og búk. Hann hlaut einnig taugaskemmdir á hönd eftir stungusár og hefur misst allan mátt í hendinni,“ segir hann við spænska dagblaðið.
Meintur árásarmaður, Hadi Matar, var leiddur fyrir dóm í ágúst en hann hefur neitað sök. Um 2.500 manns fylgdust með þegar árásarmaðurinn ruddist upp á svið og stakk rithöfundinn. Matar var handtekinn af lögregluþjóni á vettvangi.