Erlent

Banda­ríkja­menn saka Kín­verja um njósnir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland stendur fyrir miðju og ávarpar blaðamenn á fundinum. Til vinstri á myndinni er aðstoðardómsmálaráðherra Lisa Monaco og til hægri er yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar.
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland stendur fyrir miðju og ávarpar blaðamenn á fundinum. Til vinstri á myndinni er aðstoðardómsmálaráðherra Lisa Monaco og til hægri er yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar. Getty/Dietsch

Bandaríkjamenn hafa sakað þrettán kínverska ríkisborgara um njósnir og ólögleg afskipti. Dómsmálaráðherra greindi frá meintum tilraunum Kínverja á blaðamannafundi í dag.

Merrick Garland dómsmálaráðherra Bandaríkjanna segir að um þrjú aðskilin mál sé að ræða. NBC greinir frá.

Í fyrsta málinu eru sjö kínverskir ríkisborgarar sakaðir um að hafa reynt að flytja kínverskan ríkisborgara, og meinta andófsmenn Kína, frá Bandaríkjunum og heim aftur með valdi. Þeir sem sakaðir eru um verknaðinn eru taldir hafa tengsl við kínverska leyniþjónustu.

Aðrir voru sakaðir um að hafa haft afskipti af sakamáli tengdu fjarskiptafyrirtæki. Dómsmálaráðherrann greindi ekki frá því hvaða fyrirtæki um ræddi en miðlar ytra telja að um hafi verið að ræða fjarskiptafyrirtækið og farsímaframleiðandann Huawei. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kærði fyrirtækið árið 2019 fyrir að hafa stolið bandarískri tækni.

Í gögnum málsins kemur fram að sökuðu hafi reynt að ráða til sín ónafngreindan uppljóstrara. Uppljóstararinn átti að leka til þeirra trúnaðarupplýsingum um rannsókn dómsmálaráðuneytisins á hendur fyrirtækinu í skiptum fyrir háar fjárhæðir í rafmyntinni Bitcoin.

„Þessi mál sýna ótvírætt að Kínverjar hafi reynt að grafa undan frelsi og réttindum Bandaríkjamanna. Þeim tókst ekki að grafa undan réttarkerfi okkar. Dómsmálaráðuneytið mun ekki sætta sig við tilraunir erlendra aðila til að grafa undan stoðum réttarríkisins,“ sagði dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×