Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar. Þar segir enn fremur gæsluvarðhaldið megi þó ekki standa lengur en þangað til niðurstaða fæst í áfrýjun mannsins á öðrum dómi, þar sem hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að maðurinn sé grunaður um að hafa veist að móður sinni með ofbeldi, tekið hana ítrekað hálstaki svo hún missti andann, sparkað í bringu hennar og veitt henni ýmis högg.
Móðirin telur að atlaga mannsins hafi staðið yfir í um klukkustund. Segist hún hafa talið að hún væri að upplifa sína síðustu stund er sonur hennar hélt fyrir öndun hennar.
Hringdi á prest sem grunaði að ekki væri allt með felldu
Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi hringt á prest sem hafi grunað að ekki væri allt með felldu. Presturinn hringdi á lögreglu sem kom á vettvang og handtók manninn.
Í úrskurði Landsréttar segir að maðurinn hafi ítrekað sætt nálgunarbanni gagnvart foreldrum sínum. Hefur hann meðal annars hlotið dóm fyrir að hafa veist að föður sínum með hnífi.
Var farið fram á að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald til september á næsta ári. Landsréttur taldi þó hæfilegt að úrskurða manninn í gæsluvarðhald til 31. mars, en þó ekki lengur en þar til endanlegur dómur gengur í áðurnefndu dómsmáli.