Þýska fréttastofan Deutsche Welle segir að þingmenn Dúmunnar hafi samþykkt frumvarpið einróma í dag. Formlega er frumvarpið kallað bann við áróðri fyrir óhefðbundnum kynferðislegum tengslum og höfnun á fjölskyldugildum.
Upphaflega bannið var lagt á árið 2013 og gerði það ólöglegt að kynna börn og ungmenni fyrir samkynhneigð. Rússnesk stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir bannið á alþjóðavísu. Með þeim breytingum sem voru samþykktar á lögunum í dag verður „áróðurinn“ bannaður, hvort sem hann beinist að börnum eða fullorðnum.
Sumir þingmenn og bandamenn Vladímírs Pútíns forseta tengdu bannið við stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu og að það skipti þar sköpum.
„Stríðið er ekki aðeins á vígvellinum. Það er líka í snjallsímum barnanna okkar, í teiknimyndum og í kvikmyndum. Kjarni áhrifa óvina okkar felst í áróðri fyrir endaþarmsmökum,“ sagði Konstantín Malofejev, eigandi íhaldssamra fjölmiðla, við Dúmuna.