Lífið

Stjörnu­spá Siggu Kling snýr aftur á Vísi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigga Kling mætir í næstu viku aftur til leiks á Vísi með sína sívinsælu stjörnuspá.
Sigga Kling mætir í næstu viku aftur til leiks á Vísi með sína sívinsælu stjörnuspá. Silla Páls

Í næstu viku snýr Sigríður Klingenberg, best þekkt sem Sigga Kling, aftur á Lífið á Vísi. Stjörnuspá hennar mun birtast á vefnum í hverjum mánuði. 

„Boom, Sigga is back!“ segir Sigga um endurkomuna. 

Stjörnuspáin var birt hér á Lífinu á Vísi á árunum 2015 til 2019 og naut fádæma vinsælda. Þá færði Sigga sig yfir til mbl.is en nú í september kvaddi hún Hádegismóana. Því birtist engin stjörnuspá í október og Sigga sagði frá því á dögunum að hún hefði fengið símtöl frá örvæntingarfullum eiginmönnum sem væru að forvitnast eftir spám fyrir konur sínar. 

Nóvemberspá næsta föstudag

Aðdáendur spákonunnar þurfa þó ekki að bíða mikið lengur eftir nýrri spá. 

„Nóvemberspáin mín lendir á Vísi í næstu viku og mun birtast þar alltaf fyrsta föstudag í hverjum mánuði eins og áður. Ég elska að koma og vera með vinum mínum þar og er spennt fyrir þeim óendanlegu möguleikum sem geta spunnist út frá þeirri samvinnu.“

Vísir mun einnig framleiða myndbönd með hverri stjörnuspá líkt og áður og segist Sigga hlakka til þess að bjóða aftur upp á þau. 

„Nú geta elsku vinir mínir aftur hlustað og séð mig í mynd lesa stjörnuspá mánaðarins. Ég hef heyrt það frá mörgum að þeir væru leiðir yfir því að geta ekki bara hlustað í bílnum hvenær sem þeir vildu. Svo er þetta sérstakt „tribute“ til unga fólksins sem er svo framarlega í tækninni og hefur kannski ekki alla þolinmæði í heimi að lesa stjörnuspána.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.