Skoðun

Þegar Sam­fylkingin missti kjarkinn

Erlingur Sigvaldason skrifar

Áhugi fólks á því að hefja aðildarviðræður að nýju við Evrópusambandið hefur sjaldan verið jafn mikil og núna. Það er könnun eftir könnun sem sýnir að meirihluti Íslendinga vill sækja um aðild til þess að vita hvað það hefur í för með sér.

Það er því furðulegt að á landsfundi Samfylkingarinnar um helgina kvað við nýjan tón í flokknum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki lengur á dagskrá hjá flokknum og þar með fækkaði valkostum evrópusinna í kjörklefanum. Samfylkingin var hugrökk á sínum tíma og þorði að taka af skarið í þessu máli og koma aðild Íslands að ESB í umræðuna. Það er því miður að flokkurinn hafi týnt kjarkinum og vilji núna fela þetta stefnumál á blaðsíðu 62 af 64 í stefnu sinni.

Í stefnuræðu sinni sagðist Kristrún að ekki væri hægt að þylja upp gömlu rökin heldur að hefja þyrfti að nýju rannsókn á kostum og göllum aðildar. Þar hefur Kristrún alveg rétt fyrir sér að umræðan þarf að vera lifandi og ekki byggð á gögnum sem eru áratuga gömul, en það sem Kristrún ávarpar ekki í ræðu sinni er það hvernig Samfylkingin ætlar að byrja þetta nýja samtal. Samfylkingin virðist því sópa þessu mikilvæga máli til hliðar.

Viðreisn er því núna orðinn eini flokkurinn eftir sem setur aðild Íslands að ESB í forgang, enda er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Sérstaklega varðar það hagsmuni ungs fólks að tryggja okkur aðgang að öllum þeim tækifærum sem aðild hefur uppá að bjóða. Þótt Evrópusambandið sé engin töfralausn fyrir Ísland þá er það mikilvægt skref í átt að því að byggja betra samfélag. Baráttan fyrir aðild vinnst ekki á því að sleppa því að taka umræðuna heldur vinnst hún á því að flokkar með mismunandi hugmyndafræði taki höndum saman og tali fyrir henni af sannfæringu og rökfestu.

Við í Viðreisn höldum umræðunni ótrauð áfram með von um að Samfylkingin fari að taka samtalið, sem þeim greinilega hefur vantað, um kostina sem því fylgja að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Höfundur er forseti Uppreisnar - Ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×