Skoðun

Ensku­mælandi ráð

Guðbrandur Einarsson skrifar

Fjöldi erlendra íbúa á Íslandi hefur farið vaxandi undanfarin ár og sömuleiðis fjöldi ferðamanna sem sækir Ísland heim. Í mörgum sveitarfélögum eru erlendir íbúar nú orðnir á bilinu 25-50% og ekkert bendir til þess að þessar tölur muni lækka i náinni framtíð, slík er þörfin fyrir erlent vinnuafl.

Þessum nýju íbúum gengur misvel að aðlagast samfélaginu. Mörgum gengur illa að ná tökum á íslenskunni og það getur gert það að verkum að fólk einangri sig eða haldi sig bara með þeim sem tala þeirra eigið tungumál. Slík hópaskipting getur hvorki verið þessum íbúum né samfélaginu til góðs. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé fyrir þá sem ætla að setjast hér að ná tökum á íslenskunni þá er hægt að grípa til ýmissa annara ráða til þess að hjálpa fólki að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Á ferðum mínum um Suðurkjördæmi verður maður margs vísari og m.a. því að sveitarfélögin er mörg hver farin að bregðast við þessari stöðu.

Í Mýrdalshreppi, þar sem helmingur íbúa er með erlent ríkisfang, hefur verið komið á fót enskumælandi ráði sem í sitja sjö íbúar með erlent ríkisfang. Með þessu vilja Mýrdælingar koma til móts við þennan hóp og skapa íbúum með erlent ríkisfang möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en ekki síður að samfélagið fái að njóta þeirrar þekkingar og hæfni sem þessi hópur býr yfir. Frábært skref sem gerir þessum hópi auðveldara með að aðlagast sínu samfélagi.

Með þessu er verið að valdefla þessa nýju íbúa og fá þá til þátttöku en einnig að aðlaga okkur sem fyrir eru að breyttum veruleika.

Væri það ekki góð hugmynd fyrir önnur sveitarfélög að fara að fordæmi Mýrdælinga og stofna til slíkra ráða?

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×