Innlent

Faðir ríkis­lög­reglu­stjóra sagður hafa selt ó­lög­lega hálf­sjálf­virka riffla

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Riffillinn sem meðal annars var til umfjöllunar var af tegundinni AR-15.
Riffillinn sem meðal annars var til umfjöllunar var af tegundinni AR-15. Vísir/Vilhelm

Guðjón Valdimarsson, faðir ríkislögreglustjóra, er sagður hafa smíðað og selt ólöglega hálfsjálfvirka riffla. Heimildarmenn segja að húsleit hafi verið gerð heima hjá honum nýverið í kjölfar rannsóknar á meintum hryðjuverkum.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Þar kemur fram að ónefndur karlmaður hafi verið sakfelldur í Landsrétti fyrr á þessu ári fyrir að hafa átt AR-15 hríðskotabyssu. Maðurinn kvaðst ekki hafa breytt rifflinum sjálfur heldur fengið hann hálfsjálfvirkan, og þar af leiðandi ólöglegan, frá Guðjóni. Guðjón á að hafa verið kallaður fyrir dóm og neitað því að hafa breytt rifflinum. Að sögn RÚV var málið ekki kannað frekar.

Byssusmiðurinn Agnar Guðjónsson segir enn fremur við RÚV að hann hafi fengið til sín hálfsjálfvirka riffla, sem eiga að hafa verið keyptir hjá Guðjóni. Fólk hafi komist að því að byssurnar væru ólöglegar, eftir kaup á vopnunum hjá Guðjóni, og fengið Agnar til að koma þeim í löglegt horf.

Guðjón bæði safnar skotvopnum og selur þau á vefsíðunni Vopnasalinn. Lögreglan hefur ekki viljað gefa upp hvernig Guðjón tengist meintu hryðjuverkamáli, geri hann það yfir höfuð. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókn á málinu vegna mögulegs vanhæfis, skömmu eftir að það kom upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×