Innlent

Réðst á starfs­mann sem gómaði hann við að stela

Bjarki Sigurðsson skrifar
Atvikið átti sér stað fyrir utan verslun Nettó í Mjóddinni.
Atvikið átti sér stað fyrir utan verslun Nettó í Mjóddinni. Vísir/Vilhelm

Rétt rúmlega tvítugur karlmaður var í gær dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á starfsmann Nettó í Mjódd. Starfsmaðurinn hafði gómað manninn við að stela.

Þann 28. október árið 2020 fór maðurinn inn í verslun Nettó að Þönglabakka í Breiðholti þar sem hann stal vörum að verðmæti 1.265 króna. Starfsmaður Nettó hafði afskipti af honum fyrir utan. Maðurinn kýldi starfsmanninn með krepptum hnefa ítrekað í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut mar frá vinstra gagnauga niður á kinnbein, skrapsár á kinn, eymsli við nefrót og skrapsár á nefi. 

Ekki tókst að birta manninum ákæruna en samkvæmt dómnum hafði hann farið frá Íslandi og til Hollands. Ákæran var því birt í Lögbirtingablaðinu þann 19. september síðastliðinn. Þar kom skýrt fram að ef ákærði myndi ekki sækja þing þá yrði fjarvist hans metin til jafns við það að hann viðurkenndi brot sitt. 

Maðurinn sótti ekki þing og boðaði ekki forföll. Því var hann dæmdur sekur og hlaut þrjátíu daga dóm. Dómurinn er þó skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá þarf maðurinn að greiða sakarkostnað upp á 11.176 krónur. 

Hér má lesa dóminn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×