Körfubolti

Sextíu ár síðan leikmaður byrjaði NBA tímabil svona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic á ferðinni með boltann í sigri Dallas Mavericks í nótt.
Luka Doncic á ferðinni með boltann í sigri Dallas Mavericks í nótt. AP/Gareth Patterson

Luka Doncic hélt áfram uppteknum hætti í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar hann skoraði 33 stig í 103-100 sigri Dallas Mavericks á Utah Jazz.

Doncic hefur þar með skorað þrjátíu stig eða meira í fyrstu sjö leikjum tímabilsins sem er svo sjaldgæft að sjálfur Michael Jordan náði því aldrei á sínum magnaða ferli. Jordan náði mest sex fyrstu leikjunum yfir þrjátíu stig og Doncic fót því fram úr honum í nótt.

Það þarf í raun að fara sextíu ár aftur í tímanna, allt til tímabilsins 1962-63, til að finna síðasta leikmann sem náði þessu.

Sá hét Wilt Chamberlain en hann skoraði yfir þrjátíu stig í 23 fyrstu leikjum þess tímabils. Wilt bætti þá eigið met eftir að hafa skorað yfir þrjátíu stig í átta fyrstu leikjunum þremur tímabilum fyrr.

„Þetta er sjaldgæft og við fáum að sjá þetta á hverju kvöldi,“ sagði Jason Kidd, þjálfari Dallas Mavericks, eftir leikinn í nótt.

Doncic er með 36,1 stig að meðaltali í þessum fyrstu sjö leikjum en á síðustu sextíu NBA-tímabilum hafa aðeins tveir leikmenn skorað meira í leik í upphafi leiktíðar en það eru þeir Michael Jordan (37,0 stig í leik 1986-87) og James Harden (36,6 stig í leik 2019-20).

Doncic er enn bara 23 ára gamall og á sínu fimmta tímabili í NBA-deildinni. Hann er líka að spila uppi félaga sína en Slóveninn var líka með ellefu stoðsendingar í nótt og hefur þegar átt fjóra 30-10 leiki á tímabilinu. Restin af deildinni er aðeins samanlagt með fjóra slíka leiki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×