Erlent

Fjarlægðu rússneska fánann af ráðhúsinu í Kherson og sagðir líklegir til að hörfa

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á ferðinni í Kherson-héraði.
Úkraínskir hermenn á ferðinni í Kherson-héraði. Getty/Carl Court

Einn af leppstjórum Rússa í Kherson-héraði í Úkraínu sagði í morgun að líklegt væri að rússneskir hermenn myndu hörfa frá vesturbakka Dniproár og þar með Kherson-borg, einu héraðshöfuðborginni sem Rússar hafa náð tökum á frá því innrás þeirra hófst í febrúar.

Kirill Stremousov, umræddur leppstjóri, sagði í viðtali í morgun að Rússar myndu líklegast flýja á austurbakkann. Það var eftir að hann birti skilaboð á samfélagsmiðlinum Telegram, þar sem hann hvatti íbúa borgarinnar til að flýja.

Í þeim skilaboðum sagði hann þó að að svo stöddu væru Rússar enn með fulla stjórn á aðstæðum. Það vakti þó athygli að Stremousov tók upp skilaboðin þar sem hann var staddur í bíl sem virtist fullur af farangri.

Francis Scarr, blaðamaður BBC, vakti athygli á skilaboðum Stremousovs í morgun.

Sergei Surovkin, herforingi sem fer nú með stjórn innrásarinnar í Úkraínu, sagði í sjónvarpsávarpi í síðasta mánuði að aðstæður væru erfiðar fyrir Rússa á vesturbakka Dniproár og gaf hann til kynna að undanhaldi væri líklegt í framtíðinni.

Sjá einnig: Segir stöðu Rússa erfiða og ýjar að undanhaldi

Undanfarna daga hafa borist misvísandi fregnir af mögulegu undanhaldi Rússa frá svæðinu. Rússar eru sagðir hafa verið að flytja hermenn á brott en á sama tíma sent nýja hermenn á vesturbakkann auk hergagna og þar að auki eru Rússar sagðir hafa byggt upp varnir í kringum Kherson-borg.

Því hafa líkur verið leiddar að því að Rússar hafi ekki ætlað sér að hörfa frá vesturbakkanum og hafi þess í stað verið að skipta út hermönnum á víglínunum.

Úkraínumenn hófu í sumar gagnsókn gegn Rússum í Kherson en í aðdraganda hennar sendu Rússar sýnar reynslumestu herdeildir til héraðsins. Þar hafa þær herdeildir verið á víglínunum síðan og án mikillar hvíldar. Á þessum tíma hafa Úkraínumenn sprengt upp brýr yfir Dnipro og reynt að gera Rússum erfitt að koma birgðum og hergögnum til hersveita sinna á vesturbakkanum.

Þannig hafa Úkraínumenn viljað þvinga Rússa til að hörfa í stað þess að þurfa að berjast um Kherson-borg, götu fyrir götu, hús fyrir hús.

Í morgun birtust svo myndir frá Kherson-borg sem sýndu að Rússar höfðu tekið niður rússneska fánann á toppi ráðhúss borgarinnar og í gær birtust myndir af meintu ráni Rússa á munum úr safni í Kherson.

Íbúar birtu þar að auki myndbönd af varðstöð sem rússneskir hermenn voru sagðir hafa yfirgefið.

Úkraínumenn hafa lítið tjáð sig um fregnirnar í dag. Hingað til hafa þeir sagt að Rússar séu ekki líklegir til undanhalds. Talsmaður herafla Úkraínumanna í suðri sagði í viðtali við úkraínskan miðil í morgun að fólk ætti ekki að fagna of snemma. Mögulega væru Rússar að reyna að leggja gildru fyrir úkraínskar hersveitir.

Natalya Gumenyuk sagði enn barist í Kherson-héraði.

Ráðamenn á Vesturlöndum segja Rússa þegar hafa flutt leiðtoga herdeilda í Kherson til austurbakka Dnipro.

Mjög óljóst ástand

Michael Kofman, sem sérhæfir sig í málefnum rússneska hersins og var nýverið í Kherson-héraði að virða fyrir sér aðstæður og ræða við leiðtoga í úkraínska hernum, segir ástandið í héraðinu mjög óljóst.

Rússar virðist hafa flutt hermenn frá vesturbakkanum á sama tíma og þeir hafa flutt mikið af kvaðmönnum (mönnum sem hafa verið skikkaðir til herþjónustu) á víglínurnar í staðinn. Kofman segir bardaga þar erfiða fyrir Úkraínumenn og að Rússar virðist eiga nóg af skotfærum, þó birgðastaða þeirra sé ekki góð.

Í röð tísta um stöðuna í Úkraínu segist hann telja að yfirmenn rússneska hersins hafi ákveðið að hörfa frá vesturbakkanum en þeir vilji gera það hægt og rólega til að forðast það að undanhald breytist í flótta, eins og gerðist nýverið í Kharkív-héraði.

Á sama tíma vilji Rússar reyna að valda miklum skaða á úkraínskum hersveitum í Kherson.


Tengdar fréttir

Skildu eftir sig skjöl sem varpa ljósi á vandræði Rússa

Þegar hersveitir Rússa hörfuðu með hraði frá austanverðu Kharkív-héraði í Úkraínu í september, skyldu þeir ýmislegt eftir sig. Þar á meðal mikið magn þungavopna eins og skrið- og bryndreka auk stórskotaliðsvopna. Þeir skyldu þó einnig eftir sig mikið magn gagna.

Hvetja þá sem hafa flúið til að halda sig erlendis út veturinn

Stjórnvöld í Úkraínu hafa biðlað til þeirra Úkraínumanna sem hafa flúið land frá því að Rússar hófu innrás sína í febrúar síðastliðnum, um að snúa ekki aftur fyrr en í vor. Orkuinnviðir landsins ráði einfaldlega ekki við mannfjöldann.

Rússar búa sig undir árás á Kherson

Rússneskar hersveitir í Kherson héraði búa sig nú undir mikinn bardaga við úkraínska herinn að sögn úkraínsks embættismanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×